Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

ÍSÍ greiðir rúmlega 150 m.kr. til íþróttahreyfingarinnar

03.09.2020

ÍSÍ skipaði vinnuhóp 25. mars sl. til að móta tillögur að skiptingu þeirra fjármuna sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19 en viðræður stóðu yfir við mennta- og menningarmálaráðherra á þeim tíma um slíkan stuðning.

Þann 29. apríl 2020 var undirritaður samingur á milli mennta- og menningarmálaráðherra og ÍSÍ um 450 milljón króna stuðning vegna faraldurs Covid-19, sem gengið hefur yfir.

Þann 19. maí sl. voru síðan greiddar til 214 íþrótta- og ungmennafélaga tæplega 300 milljónir króna í almennri aðgerð, í samræmi við tillögur vinnuhópsins sem samþykktar voru af framkvæmdastjórn ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðherra.

Þann 26. maí sl. var auglýst eftir umsóknum vegna sértækra aðgerða frá sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum sem höfðu orðið fyrir tapi eða tekjufalli vegna viðburða sem hætt var við á vormánuðum, vegna Covid-19. Til úthlutunar voru eftirstöðvar fjárframlags ríksins, um það bil 150 milljónir króna.

Ofangreindur vinnuhópur skilaði af sér tillögum 27. ágúst sl. og voru þær tillögur í framhaldinu samþykktar af framkvæmdastjórn ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðherra.Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) úthlutaði í dag rúmlega 150 milljónum króna úr sértækum aðgerðum vegna áhrifa Covid-19, að undangengnu umsóknarferli. Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhópsins.

Alls bárust 98 umsóknir vegna sértækra aðgerða. Heildarupphæð umsókna voru tæpar 700 milljónir krónur.

Nokkrar umsóknir voru lagðar fram um tekjutap utan þess tímabils sem styrkhæft var að mati vinnuhópsins og í ljósi þess að önnur bylgja smita hófst í júlí, hafa ýmsir aðilar haft samband og spurst fyrir um hvort þeir geti sent inn umsókn í sértækar aðgerðir. Það var mat vinnuhópsins að núverandi úthlutun sé einungis til að mæta áhrifum vegna samkomubanns á vormánuðum þ.e. frá 1. mars til 1. júní 2020.

Ljóst er að áhrif annarrar bylgju faraldursins eru veruleg á íþróttahreyfinguna og því er nauðsynlegt að unnið verði með stjórnvöldum að meta það tjón og finna leiðir til að styðja við þá aðila innan íþróttahreyfingarinnar sem misst hafa mikilvæga tekjumöguleika til að fjármagna starfsemi sína. Eðlilegt er að það tjón komi til skoðunar þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um frekari stuðning við íþróttahreyfinguna vegna áframhaldandi tjóns vegna COVID -19.

Íþróttahreyfingin þakkar stjórnvöldum veittan stuðning og skilning og treystir á áframhaldandi stuðning svo öflugt íþróttastarf geti haldið áfram komandi vetur þrátt fyrir fyrirsjáanlega erfiðleika vegna veirufaraldursins.