Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

88% ánægðir með þjálfarann

06.08.2020

Í niðurstöðum Ánægjuvogarinnar 2020 kemur m.a. fram að 88% nemenda sem æfa íþróttir eru ánægðir með þjálfarann sinn.

Hér má sjá Ánægjuvogina 2020

Ánægjuvogin er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni felst að spurningar tengdar íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar á þessu ári og var svarhlutfallið 85%.

Kynning fór fram á Ánægjuvoginni 2020 þann 12. júní sl. Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu (R&g) og í íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík kynnti niðurstöður. Hægt er að horfa á kynninguna hér.

Niðurstöður Ánægjuvogarinnar eru mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi og taka ÍSÍ og UMFÍ því fagnandi. Þar kemur skýrt fram að þeim nemendum sem eru virkir í skipulögðu íþróttastarfi líður betur og vinna betur í hópi en aðrir. Þetta er mikill fjöldi, því um 90% barna í hverjum árgangi fer í gegnum íþróttastarf með íþróttafélagi á einhverjum tímapunkti. Meirihluti nemendanna metur andlega og líkamlega heilsu sína góða, eru síður líkleg til að sýna af sér frávikshegðun og neyta vímuefna.

Margrét Lilja segir niðurstöður rannsókna Rannsókna og greininga sýna ótvírætt kosti skipulags íþróttastarfs: „Við sjáum hvaða þættir það eru sem eru verndandi og hvaða þættir það eru sem draga úr líkum á því að barn leiðist út í einhvers konar frávikshegðun, sér í lagi vímuefnaneyslu. Við sjáum að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur forvarnargildi.“