Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Nikolay heiðraður á ársþingi SKY

13.07.2020

Ársþing Skylmingasambands Íslands fór fram 8. júlí sl. í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Nikolay Ivanov Mateev var endurkjörinn formaður sambandsins og með honum í stjórn voru kjörin Anna Karlsdóttir, Kristmundur Bergsveinsson, Ólafur Bjarnason og Þorbjörg Ágústsdóttir. Í varastjórn voru kjörin þau Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir, Jón Þór Backman og Sævar Baldur Lúðvíksson.

Sigríður Jónsdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu en hún var sinnti einnig embætti þingforseta á þinginu. Á þinginu var samþykkt tillaga um grunnstyrk og hvatakerfi SKY 2020-2021.

Sigríður afhenti Nikolay formanni SKY, Gullmerki ÍSÍ fyrir frábært starf í þágu skylmingaíþróttarinnar á Íslandi. Nikolay er ekki aðeins formaður Skylmingasambands Íslands heldur er hann einnig varaforseti Evrópska skylmingasambandsins (EFC). Að auki er hann formaður nefndar Alþjóðaskylmingasambandsins um kynningar-, samskipta- og markaðsmál en hann hefur í gegnum árin átt sæti í fleiri nefndum á vegum EFC. Nikolay hefur einnig setið í stjórn Dansíþróttasambands Íslands.

Á myndinni eru þau Nikolay og Sigríður við afhendingu heiðursviðurkenningarinnar.