Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
27

Gullmerki ÍSÍ veitt á ársþingi BLÍ

15.06.2020

Ársþing Blaksambands Íslands (BLÍ) var haldið á laugardaginn sl. Þingið var að venju starfsamt og margar tillögur sem lágu fyrir þinginu. Rúmlega 21 þingfulltrúi sótti þingið.

Fyrir þingið var ljóst að Stefán Jóhannesson og Kristín Harpa Hálfdánardóttir myndu hætta í stjórn. Þá var einnig ljóst að Sigurbjörn Árni Arngrímsson myndi ekki gefa kost á sér áfram í varastjórn en hann hefur verið frábær sjálfboðaliði fyrir blakhreyfinguna síðan 2013 með mótamálin í sinni umsjá. Á þinginu veitti Sigríður Jónsdóttir fyrsti varaforseti ÍSÍ Sigurbirni Árna Arngrímssyni Gullmerki ÍSÍ og Kristínu Hálfdánardóttur og Andra Hnikarr Jónssyni Silfurmerki ÍSÍ.

Stefán Jóhannesson hætti í stjórn BLÍ eftir langt tímabil en hann var kosinn fyrst í stjórn BLÍ árið 1992. Stefán var kosinn formaður BLÍ á ársþingi árið 1995 og gegndi því til ársins 1999. Kom hann aftur inn í stjórn BLÍ árið 2004 og hefur setið samfellt síðan sem varaformaður sambandsins. Stefáni var þakkað vel og innilega fyrir störf sín fyrir Blakhreyfinguna og þakkaði hann einnig fyrir sig í frábærri lokaræðu á þinginu þar sem komið var inn á fyrri ársþing og minningar úr leik og starfi.

Kosið var í nýja stjórn BLÍ á þinginu en inn í stjórn BLÍ komu þær Dagbjört Víglundsdóttir og Hrafnhildur Theódórsdóttir. Báðar hafa þær verið áður í stjórn BLÍ en Dagbjört er fyrrum afrekskona í blaki og á að baki fjölmarga landsleiki fyrir Ísland. Í varastjórn sambandsins voru sjálfkjörin þau Steinn Guðni Einarsson, Valgeir Bergmann og Ásthildur Gunnarsdóttir en þau tvö síðastnefndu eru ný inn í hlutverkið. Steinn hefur verið í varastjórn um nokkurt skeið.

Í lok ársþings BLÍ á laugardag veitti Grétar Eggertsson formaður þeim Auði Ösp Jónsdóttur og Steini Guðna Einarssyni heiðursmerki BLÍ úr silfri. Hafa þau bæði verið mikilvægir sjálfboðaliðar í hreyfingunni undanfarin ár. Grétar þakkaði í lok þingsins þingfulltrúum fyrir störfin og sagði það ljóst að mörg verkefni væru framundan hjá Blaksambandinu og nefndi þar helst strandblakmótin sem framundan eru, þjálfaramenntunina sem er að fara í gang um næstu helgi ásamt því að keyra afreksstarfið af stað að nýju eftir Covid19.

Á myndunum má sjá annars vegar Kristínu Hálfdánardóttur og Sigurbjörn Árna Arngrímsson með Sigríði Jónsdóttur frá ÍSÍ og hins vegar Stefán Jóhannesson og Grétar Eggertsson, formann BLÍ.

Myndir með frétt