Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Jákvæðar niðurstöður fyrir íþróttahreyfinguna

08.06.2020

Ánægjuvogin 2020 er nú birt og eru niðurstöður jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna. Skýrslan er unnin fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) af Rannsóknum og greiningu, Háskólanum í Reykjavík. Í skýrslunni má sjá ánægju grunnskólanema í 8., 9. og 10. bekk með íþróttafélagið sitt og áherslur þjálfara í starfi, einnig má sjá þátttöku unglinga af erlendum uppruna í íþróttastarfi, ástæður brottfalls úr íþróttum ásamt vímuefnaneyslu unglinga. Niðurstöður skýrslunnar eru greinanlegar niður á íþróttahéruð.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Íþróttafræðideild HR og Rannsóknum og greiningu kynnir niðurstöður skýrslunnar föstudaginn 12. júní. Kynningin fer fram í fundarsal í Laugardalshöllinni og hefst kl.10:00. Kynningunni verður streymt beint á miðlum ÍSÍ og UMFÍ.

Dæmi um niðurstöður:
• 61% Nemenda í efstu bekkjum grunnskóla æfa með íþróttafélagi 1x í viku eða oftar.
• Neysla allra vímuefna er mun ólíklegri á meðal unglinga í 8.-10. bekk sem æfa íþróttir með íþróttafélagi en þeirra sem æfa ekki.
• 1,6 % unglinga sem æfa ekki íþróttir með íþróttafélagi reykja daglega samanborið við 0,2% þeirra sem æfa.
• 11% unglinga sem æfa ekki hafa orðið ölvaðir 1x eða oftar um ævina samanborið við 4% þeirra sem æfa.

Ánægjuvogin byggir á niðurstöðum rannsóknar sem lögð var fyrir alla nemendur í 8. til 10. bekk á Íslandi í febrúarmánuði árið 2020. Framkvæmd og úrvinnsla rannsóknarinnar var í höndum Rannsókna & greiningar. Allir nemendur sem sátu í kennslustundum daginn sem könnunin fór fram svöruðu spurningalistanum. Samtals fengust gild svör frá 3712 nemendum í 8. bekk, 3436 nemendum í 9. bekk og 3368 í 10. bekk. Heildarsvarhlutfall á landsvísu var um 85%.

Íþrótta og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Rannsóknir og greining standa fyrir kynningunni.