Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

87. Ársþing USÚ

08.06.2020

87. Ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) fór fram í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings, 2. júní sl. Þingið var vel sótt, 38 fulltrúar af 46 mættu og öll félög sendu fulltrúa. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu og Sæmundur Helgason ritaði þinggerð í fjarveru Kristjáns Arnar Ebenezerssyni ritara. Sjö tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu. Fyrst skal nefna tillögu sem gengur út á að hvert aðildarfélag USÚ skipi einn fulltrúa í nefnd sem fara á yfir núgildandi reglugerð um skiptingu lottótekna. Í því felst m.a. að ný lottóreglugerð verði lögð fyrir ársþing 2021. Núgildandi reglugerð var breytt þannig að nú þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta henni. Er það m.a. gert til að um nýja reglugerð ríki breiðari sátt en verið hefur. Þá má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum ÍSÍ og UMFÍ. Klifurfélag Öræfa (KFÖ) var samþykkt sem aðildarfélag USÚ og eru virk aðildarfélög þá orðin átta talsins. Einnig var samþykkt tillaga um að USÚ geti fært lögheimili sitt á Hafnarbraut 15, 780 Höfn. Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Formaður og gjaldkeri gáfu kost á sér til endurkjörs og voru endurkjörin. Kristján Örn Ebenezarson, ritari, gaf ekki kost á sér áfram og í hans stað var kosinn Jón Guðni Sigurðsson. Varamenn gáfu kost á sér áfram. Nýja stjórn skipa því: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson eru varamenn.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2019. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019 var útnefndur á þinginu, en þá viðurkenningu hlaut Þorlákur Helgi Pálmason, fyrirliði meistaraflokks karla í knattspyrnu. Auk þess hlutu fimm ungir iðkendur hvatningarverðlaun USÚ, þau Freyr Sigurðsson, Hermann Þór Ragnarsson, Kjartan Jóhann R. Einarsson, Selma Ýr Ívarsdóttir og Sigurður Guðni Hallsson.

Á myndum með fréttinni má sjá annars vegar alla handhafa hvatningarverðlauna USÚ auk Íþróttamanns USÚ 2019. Frá vinstri: Sigurður Guðni, Hermann Þór, Freyr, Þorlákur Helgi og Kjartan Jóhann. Á myndina vantar Selmu Ýr Ívarsdóttur (Mynd: SÓJ) og hins vegar mynd úr sal frá þinginu. 

Myndir með frétt