Tveggja metra reglan áskorun fyrir judoiðkendur
Judosamband Íslands (JSÍ) hefur teflt fram 9 þátttakendum í judo á samtals níu Ólympíuleikum. Á tuttugu ára tímabili, frá 1976 til 1996, og síðan þrenna leika í röð frá 2008 til 2016.
Á Ólympíuleikunum í Montreal í Kanada árið 1976 kepptu Gísli Þorsteinsson í léttmillivigt og Viðar Guðjohnsen í millivigt. Fjórum árum síðar kepptu Bjarni Friðriksson í -95kg flokki og Halldór Guðbjörnsson í -71kg flokki á leikunum í Moskvu í Rússlandi. Þá hafnaði Bjarni í 7.–8. sæti í sínum flokki og var hann á þessum tíma í hópi bestu judomanna Evrópu. Á næstu leikum, í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 1984, tefldi JSÍ tveimur þátttakendum til leiks, Kolbeini Gíslasyni í opnum flokki og Bjarna í sínum -95kg flokki. Í flokki Bjarna voru 24 keppendur og sat Bjarni yfir í fyrstu umferð. Í næstu umferð sigraði hann Danann Carsten Jensen og síðan sigraði Bjarni Bandaríkjamanninn Leo White í þriðju umferð. Þar með var hann kominn í undanúrslit, en tapaði þeirri glímu á móti Douglas Vieira frá Brasilíu. Í viðureign um bronsverðlaunin sigraði Bjarni Ítalann Yuri Fazi. Náði Bjarni þá þeim merka áfanga að vera annar Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum.
Á Ólympíuleikunum í Seoul í Suður-Kóreu árið1988 tefldi Ísland fram tveimur þátttakendum, Bjarna og Sigurði Bergmann, sem keppti í opnum flokki. Á leikunum varð Bjarni í 9. sæti í -95 kg. flokki. Þeir félagar, ásamt Frey Gauta Sigmundssyni, kepptu einnig í Barcelona á Spáni árið 1992. Þá hafði Bjarni keppt á fernum Ólympíuleikum í röð, en hann hætti keppni í júdó árið 1993.
Á leikunum 1996 í Atlanta í Bandaríkjunum keppti Vernharð Þorleifsson í millivigt. Enginn judomaður náði inn á leikana árin 2000 og 2004. Síðan þrenna leika í röð, 2008 í Peking í Kína, 2012 í London í Englandi og 2016 í Ríó í Brasilíu keppti Þormóður Jónsson fyrir Íslands hönd í þungavigt með fínum árangri. Þormóður vann fyrstu umferð í Peking, en tapaði síðan í 16 manna úrslitum. Í London og í Ríó tapaði Þormóður í fyrstu umferð. Þormóður starfar nú sem framkvæmdastjóri JSÍ og sat fyrir svörum í samtali við ÍSÍ í tengslum við Ólympíuleikana í Tókýó, sem frestað var til ársins 2021.
„Covid faraldurinn raskaði mikið starfi JSÍ og aðildarfélaga innan sérsambandsins. Einnig hefur undirbúningur fyrir Ólympíuleikana tekið miklum breytingum. Almennar judoæfingar lágu alveg niðri í nokkrar vikur og erfitt var fyrir iðkendur að finna æfingar sem gætu komið í staðinn fyrir judoæfingar vegna tveggja metra reglunnar. Mikil áhersla var lögð á að iðkendur myndu stunda styrktar- og þrekæfingar sem stíla sérstaklega inn á judo. Æfingarnar áttu að koma í staðinn fyrir almenna judoþjálfun, þar sem ekki var mögulegt að glíma. Mikilvægast var að æfa rétt og varast að brenna ekki út eða meiðast þar sem ekki var nákvæmlega vitað hvænær tímabilið myndi hefjast á ný. Sérsambandið hefur gert nýjar áætlanir fyrir inntökuferli leikanna og hefur þurft að uppfæra þær nokkrum sinnum. Alþjóðajudosambandið (IJF - International Judo Federation) hefur gefið út að stefnan sé að tímabilið eigi að hefjast í september. Það verður að koma í ljós. Í sambandi við stemmninguna hjá judoiðkendum má segja að hún sé bara ágæt í dag. Fólki hlakkaði mikið til að mæta til almennra æfinga aftur og hefur það gengið vel síðan að opnað var á það“, segir Þormóður.
Einn judokeppandi stefndi á Ólympíuleikana í Tókýó, Sveinbjörn Jun Iura. Sveinbjörn setti markið á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 fyrir nokkrum árum og hefur stefnt að því síðan að keppa fyrir Íslands hönd á leikunum. Nú eftir að þeim var frestað um eitt ár hefur hann þurft að endurskipuleggja allar sínar æfingar og keppnir upp á nýtt.
„Staðan á Sveinbirni er nokkuð góð. Hann er staðráðinn í því að halda áfram og hefur verið duglegur við að æfa sjálfur þótt skilyrði séu ekki með besta móti. Ég og landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson höfum verið mikið í sambandi við hann og reynt að hjálpa honum eins og mögulegt er“, segir Þormóður.
Sveinbjörn segir að það hafi alltaf verið erfitt að ná sæti á Ólympíuleikunum og að ástandið sem verið hefur sé áskorun. Hann ætli sér að vera klár þegar að mót hefjist að nýju. „Eins og staðan er í dag erum við byrjuð að glíma af fullum krafti en fyrir það höfðum við ákeðinn hópur verið að halda okkur í formi með hlaupum og alls konar þrekæfingum. Alþjóðajudosambandið hefur ekki ennþá gefið út móta dagskrá svo í rauninni er planið mitt í sumar að æfa eins vel og ég get og keyra vel upp glímuæfingar en um leið og færi gefst langar mig að fara erlendis í æfingabúðir og koma mér í glímugírinn. Það er í raun ekki hægt að byggja neitt ákveðið plan fyrr en það er kominn staðfesting á hvaða mót verði haldin og hvenær“, segir Sveinbjörn.
„Að öllum líkindum munu ekki fleiri en einn á vegum JSÍ ná lágmörkum. Aftur á móti hefur þetta gert Agli Blöndal kleift að reyna að ná Sveinbirni og mögulega keppa um sætið. Egill helltist úr lestinni um mitt ár 2019 vegna meiðsla en er að koma sterkur til baka. Egill mun taka þátt í þessu burt séð hvort hann mun komast inn eða ekki. Mikilvægt er fyrir hann að öðlast þessa reynslu og mun eflaust nýtast honum ef hann ákveður að reyna við Ólympíuleikana í París í Frakklandi árið 2024“, segir Þormóður að lokum.
Vefsíða Judosambands Íslands
Sveinbjörn deilir leið sinni á Ólympíuleikana á Instagram síðu sinni hér.