Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Eliza Reid í umhverfisvænum Kvennahlaupsbol

18.05.2020

ÍSÍ hefur staðið fyrir Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ frá árinu 1990 og var 30 ára afmæli hlaupsins fagnað með pompi og prakt á síðasta ári. Nýir tímar kalla á nýja hugsun og eftir ítarlega endurskoðun á hlaupinu var ákveðið að halda hlaupið í ár með öðru sniði en verið hefur þessa þrjá áratugi. Breytingarnar eru hugsaðar fyrst og fremst út frá umhverfissjónarmiðum og samhliða því er einnig reynt að höfða til yngri kynslóða. 

Kvennahlaupsbolurinn í ár er 100% endurunninn, en hann er úr blöndu af lífrænni bómull og endurunnu plasti. Linda Árnadóttir, hönnuður og eigandi íslenska hönnunarfyrirtækisins Scintilla, hannaði grafíkina sem prýðir bolinn. Hér má lesa um merkið og framleiðanda bolsins sem er einnig vottaður sem Fair Trade.  

Leynd hvílir yfir útliti bolsins, en föstudaginn 22. maí nk. kl.12:15 fer fram afhjúpun á bolnum og verður allt sýnt beint hér á Facebook síðu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ. Eliza Reid forsetafrú var ein þeirra sem tók þátt í myndatökum fyrir auglýsingaherferð Kvennahlaupsins í ár. Á myndinni má sjá Lindu Laufdal verkefnastjóra Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og Hrönn Guðmundsdóttur sviðsstjóra Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ ásamt Elizu Reid forsetafrú á meðan á myndatökum stóð. Yfirskrift hlaupsins í ár er „Hlaupum saman“ en Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram þann 13. júní nk. og vonast ÍSÍ til þess að sjá sem flesta hlaupa saman um land allt.