Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Þáttur íþrótta í einstökum árangri forvarna á Íslandi

07.04.2020

Í dag fór fram annar fyrirlestur í þriðjudagsfyrirlestrarröð Háskólans í Reykjavík (HR) og bar fyrirlesturinn yfirskriftina „Þáttur íþrótta í einstökum árangri forvarna á Íslandi“. Fyrirlesturinn var haldinn af Margréti Lilju Guðmundsdóttur kennara við íþróttafræðadeild HR og starfsmanns Rannsókna og greininga (R&g).

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hafa verið í samstarfi við Rannsóknir og greiningu í nokkur ár og hafa regnhlífarsamtökin haft sérstakan áhuga á að skoða viðhorf unglinga til íþróttastarfs, tengsl íþrótta við áhættuhegðun og líðan og þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttastarfi. Rannsóknir & greining hafa tekið út úr gögnunum nokkurs konar þjónustukönnun sem kölluð hefur verið „Ánægjuvog“ en mun nú nefnast „Íþróttavísir“. Rannsóknir R&g eru þýðisrannsóknir sem þýðir að allir sem mæta í skólann daginn sem könnunin er lögð fyrir taka þátt sem þýðir um 85% þátttöku. Niðurstöðurnar munu verða greindar niður á íþróttahéruð og kynntar sérstaklega þegar þær liggja endanlega fyrir.

Í fyrirlestrinum fjallaði Margrét Lilja um að einn af verndandi þáttum hvað varðar neyslu ávana- og fíkniefna sé þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, en með skipulögðu starfi er átt við að stunda íþróttir með íþróttafélagi þar sem fullorðinn einstaklingur heldur utan um starfið og lögð er áhersla á uppeldisstarf íþrótta. Í máli Margrétar Lilju kom fram að um 90% af íslenskum börnum fer í gegnum íþróttastarf með íþróttafélagi einhvern tímann á ævinni. Frá því á tíunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag hefur minnkandi vímuefnaneysla haldist í hendur við aukna þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Niðurstöður rannsókna R&g hafa sýnt að forvarnargildi íþrótta er ekki alltaf til staðar og í sumum löndum eykst neysla vímuefna með aukinni þátttöku, sem gæti verið ein af ástæðum þess að börn af erlendum uppruna eru ekki eins líkleg til að taka þátt.

Af þeim sem stunda íþróttir með íþróttafélagi voru 84% sammála þeirri fullyrðingu að þeim þætti gaman á æfingum, sama hlutfall var ánægt með íþróttafélagið sitt, 83% voru ánægð með þjálfarann sinn og 80% með íþróttaaðstöðuna. Þá voru 90% þeirra sem æfa íþróttir 4x í viku eða oftar mjög ánægð eða ánægð með líkamlega heilsu sína og 78% með andlega heilsu. 65% af þeim sem æfa 4x í viku eða oftar með íþróttafélagi sögðust vera ánægð með líf sitt samanborið við 39% sem æfa nær aldrei og sama niðurstaða kom fram þegar spurt var hvort að þau væru hamingjusöm.

Margrét Lilja minntist einnig á áskoranir íþróttahreyfingarinnar og þá sérstaklega á brottfall og ástæður þess, og svo á þátttökutölur barna af erlendum uppruna.

Í lok fyrirlestursins sýndi hún samskipti þjálfara við iðkendur sína með samskiptaforritinu Sport Abler sem alls ekki öll íþróttafélög nota, en þau hafa verið 904.000 síðan að samskiptabannið komst á sem er gott dæmi um viðbrögð og utanumhald þjálfara á þessum skrýtnu tímum.

Hægt er að horfa á fyrirlesturinn hér.