Hreyfum okkur heima #BeActiveAtHome
Nú eru margir að vinna heima hjá sér og flestir halda sig að mestu heima við þessa dagana. Þá er mikilvægt að við finnum hentugar leiðir til að hreyfa okkur og huga að heilsunni. Hreyfing bætir bæði líkamlega og andlega heilsu og stuðlar að almennri vellíðan
Evrópusambandið, sem sér um verkefnið #BeActive, hefur nú hrint af stað herferðinni #BeActiveAtHome, en henni er ætlað að hvetja Evrópubúa til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu á þessum fordæmalausu tímum. Nú er mál að styðja hvert annað og hvetja hvert annað til hreyfingar heima við.
Almenningsíþróttasvið ÍSÍ vill fá að fylgjast með hvernig fólk heldur sér virku heima við. Sýndu okkur hvernig þín hreyfing lítur út og hvettu um leið fólk um alla Evrópu og víðar að hreyfa sig með því að merkja þínar myndir og myndbönd #BeActiveAtHome. Við þurfum að vera hugmyndarík og vinna með það sem við höfum, en mestu máli skiptir að njóta þess sem við erum að gera.
Almenningsíþróttasvið ÍSÍ sér um verkefnið #BeActive á Íslandi og hvetur nú fólk til þess að taka þátt í #BeActiveAtHome, ásamt verkefninu #28dagar30min á vegum Ísland á iði. Þegar þú deilir mynd eða myndbandi á Instagram endilega leyfðu öðrum að fylgjast með hvernig þú hugar að heilsunni og settu myllumerkin #28dagar30min og #BeActiveAtHome. Veitum hverju öðru innblástur að skemmtilegum æfingum og skorum á vini og fjölskyldu. Við erum öll í þessu saman.
Vefsíða BeActive á Íslandi