Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Íþróttamannanefnd IOC hvetur íþróttafólk áfram

02.04.2020

Íþróttamannanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) gaf út yfirlýsingu á dögunum þar sem nefndin fagnaði og studdi að fullu ákvörðun IOC, Alþjóðaólympíunefndar fatlaðra (IPC) og skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í Tókýó 2020 um að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó um eitt ár, eða til 23. júlí 2021 og Paralympics um eitt ár, eða til 24. ágúst 2021.

Íþróttamannanefnd IOC hefur undanfarið safnað saman athugasemdum frá samfélagi íþróttafólks í gegnum smáforrit sitt Athlete 365 í tengslum við frestun á Ólympíuleikunum 2020. Nefndin hefur komið athugasemdunum á framfæri til IOC, komið með tillögur að lausnum og verið hluti af ákvarðanatöku í gegnum formann sinn sem situr í stjórn IOC. Nefndin styður nýjar dagsetningar leikanna og leggur áherslu á að þessi ákvarðanataka muni veita íþróttafólkinu sem stefnir á leikana ákveðið öryggi og gera því kleift að einbeita sér að heilsu sinni og heilsu nærsamfélagsins á óvissutímum sem þessum. Einnig telur nefndin að sú ákvörðun að halda leikana yfir sumartímann, um ári eftir tilætlaðan tíma, sé rétt í ljósi þess að íþróttafólk um heim allan hafi góðan tíma til stefnu og geti hámarkað möguleika sína á góðum undirbúningi fyrir leikana.

Íþróttamannanefnd IOC segist fagna þeirri ákvörðun IOC að íþróttafólk sem þegar hefur hlotið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 haldi sæti sínu. Einnig sé mikilvægt að stuðningi frá Ólympíusamhjálpinni vegna Ólympíuleikanna í Tókýó 2020 verði áframhaldið til 2021. 1.600 íþróttamenn frá 185 Ólympíunefndum hafa notið góðs af þessum styrkjum síðastliðin ár og stuðningur sem þessi skiptir sköpum hvað varðar framhaldið á undirbúningi íþróttafólksins fyrir leikana. Nefndin fagnar því einnig að varnaraðgerðirnar sem samþykktar voru og prófaðar af skipulagsnefnd Tókýó 2020, IOC og alþjóðasamböndunum til verndar íþróttafólki sem keppir á leikunum gegn hita og slæmu veðri verða endurteknar að fullu árið 2021.

Íþróttamannanefnd IOC hvetur allt íþróttafólk og fulltrúa íþróttafólks til að halda áfram að senda ábendingar eða spyrja spurninga (í smáforriti Athlete 365 eða í pósti til athlete365@olympic.org) þar sem nefndin leitast eftir því að styðja íþróttafólk um heim allan eins vel og mögulegt er.

Að lokum sendir nefndin hvatningu til alls íþróttafólks um að vera sterkt, heilbrigt og halda sér öruggu.