Ólympíuleikunum frestað til 2021
Forsætisráðherra Japans, Shinzō Abe og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), samþykktu í kjölfar viðræðna í dag að fresta Ólympíuleikunum sem fram áttu að fara í Tókýó í júlí nk. Ólympíumóti fatlaðra hefur jafnframt verið frestað. Rétt í þessu birtist sameiginleg yfirlýsing á vefsíðu IOC. Í yfirlýsingunni segir einnig að halda skuli leikana í síðasta lagi sumarið 2021.
Markmið IOC hefur ávallt verið að standa vörð um hagsmuni íþróttafólks. Meginregla IOC hefur verið sú að ákvarðanir varðandi Ólympíuleikana 2020 byggist á því að vernda íþróttafólkið fyrir áhrifum Covid-19. Með frestun verður komið í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar og þá getur íþróttafólkið náð ákjósanlegri undirbúningi fyrir leikana en ef tekið er mið af stöðunni í dag.
Í yfirlýsingunni segir að hin fordæmalausa og óútreiknanlega útbreiðsla Covid-19 veirunnar hafi gjörbreytt aðstæðum um heim allan. Vegna þróunar mála og upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) í dag hafi forseti IOC og forsætisráðherra Japan komist að sameiginlegri niðurstöðu um að frestun leikanna væri óumflýjanleg fyrir hagsmuni alþjóðasamfélagsins, íþróttafólksins og allra þeirra sem koma að Ólympíuleikunum.
Ólympíuleikarnir, og Ólympíumót fatlaðra, verða áfram kenndir við Tókýó 2020.
Þetta er í fyrsta skipti sem Ólympíuleikunum hefur verið frestað en þrívegis áður hefur Sumarólympíuleikunum verið aflýst (1916, 1940 og 1944) og Vetrarólympíuleikunum tvívegis (1940 og 1944).