Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Kveikt á Ólympíukyndlinum

19.03.2020

Í dag, þann 19. mars, fór fram látlaus athöfn án áhorfenda á Panathenaic leikvanginum í Ólympíu í Grikklandi þegar að skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Tókýó 2020 tók við Ólympíukyndlinum úr höndum Grikkja. Á þeim leikvangi voru fyrstu nútímaleikarnir haldnir árið 1896 og hefur skapast hefð fyrir því að afhenda skipulagsnefnd þeirrar þjóðar sem heldur leikana Ólympíukyndilinn við hátíðlega athöfn. 

Kveikt var á Ólympíukyndlinum í Ólympíu þann 12. mars og stóð til að hlaupa með kyndilinn á milli borga í Grikklandi á vikutímabili. Vegna Covid-19 og þeirra aðstæðna sem skapast hafa í heiminum í dag vegna veirunnar var ákveðið að hætta hlaupinu þar sem of margir áhorfendur mættu til að fylgjast með.

Japanir tóku við Ólympíukyndlinum í dag og var honum komið fyrir í flugvél merktri „Tokyo 2020 Go“ sem flaug með hann til Tókýó. Markar þessi athöfn upphafið að kyndilhlaupi sem fram fer um allt Japan og hefst þann 26. mars og endar á setningarhátíð leikanna þann 24. júlí.

#Tokyo2020

Vefsíða leikanna