Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Fundur IOC og Ólympíunefnda Evrópu

18.03.2020

Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), Thomas Bach, hefur síðustu tvo daga átt fjarfundi með fulltrúum alþjóðasérsambanda, öllum 206 Ólympíunefndunum heimsins, fulltrúum íþróttafólks, Alþjóðaólympíunefnd fatlaðra (IPC) og öðrum hagsmunaaðilum, í tengslum við Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sátu í dag slíkan fund fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, en á þeim fundi voru fulltrúar Ólympíunefnda í Evrópu.

Á fundinum kom fram að IOC biðli til allra hagsmunaaðila að vera ábyrgir og leita leiða til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu á Covid-19. Ástandið í heiminum hefur haft áhrif á undirbúning Ólympíuleikanna í Tókýó 2020, en stefna IOC og skipuleggjenda Ólympíuleikanna er samt sem áður að halda áfram undirbúningi og stefna á að leikarnir verði að veruleika. Setningarhátíð leikanna fer fram þann 24. júlí nk. og eru nú rúmir fjórir mánuðir til stefnu. Kom það skýrt fram á símafundinum að IOC telji enga þörf á neinum róttækum ákvörðunum á þessu stigi og hvetur allt íþróttafólk til að halda áfram undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana.

Ákveðið var að samþykkja eftirfarandi meginreglur varðandi Ólympíuleikana í Tókýó 2020:

1. Að vernda heilsu allra sem koma að leikunum og að styðja við aðgerðir sem koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

2. Að gæta hagsmuna íþróttafólks og Ólympískra íþrótta. 

 

Þátttakendur á fundinum voru sammála því að fara að tilmælum Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC).

IOC mun halda áfram að fylgjast með stöðu mála allan sólarhringinn og deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast.

Myndir með frétt