Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Fundur um Covid-19 veiruna

09.03.2020

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá vinna heilbrigðisyfirvöld samkvæmt viðbragðsáætlunum Embættis landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í baráttunni við Covid-19 veiruna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn funduðu í dag með fulltrúum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og fulltrúum sérsambanda ÍSÍ vegna málsins.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra fór yfir viðbrögð yfirvalda vegna COVID-19. Hann greindi frá því að öll viðbrögð yfirvalda miðuðu að því að raska sem minnst allri starfsemi í landinu, eftir því sem kostur er. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir smitvarnir og leiðir til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Hann greindi frá því að náið er fylgst með upplýsingum sem berast erlendis frá og embættið er í samstarfi við önnur lönd. Þá er fylgst grannt með þróun og útbreiðslu hér á landi. Þó að búið sé að lýsa yfir neyðarstigi á Íslandi þá hefur ekki verið gripið til þess úrræðis að banna samkomur. Fulltrúar Embættis landlæknis og almannavarna leggja því ekki til að fresta eða hætta við íþróttaviðburði miðað við stöðuna eins og hún er í dag. 

ÍSÍ hvetur alla til að fara að tilmælum Embættis landlæknis varðandi hreinlæti og almennar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn Covid-19.

Fulltrúar ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ hafa komið sér upp samráðsvettvangi sem mun funda reglulega og fylgjast með framvindu mála. Einnig er fyrirhugað að funda með fulltrúum almannavarna með reglubundnum hætti.

Sóttvarnalæknir og almannavarnir upplýsa almenning jafnóðum um þróun mála en þessir aðilar hafa yfirumsjón með viðbrögðum vegna veirunnar. Hvatt er til þess að fólk hlýði á blaðamannafundi Almannavarna og  kynni sér þær upplýsingar sem finna má á heimasíðu landlæknis eða með því að smella hér.