Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Merki Smáþjóðaleikanna í Andorra 2021

19.02.2020

Nýlega birti skipulagsnefnd Smáþjóðaleikanna í Andorra 2021 merki leikanna, sem munu fara fram í maí/júní 2021. Mun þetta vera í þriðja sinn sem Andorra heldur Smáþjóðaleika, en leikarnir fóru fram í Andorra árin 1991 og 2005. Keppnisgreinar á leikunum eru frjálsíþróttir, sund, júdó, skotíþróttir, tennis, borðtennis, körfuknattleikur, blak, strandblak, hjólreiðar, fimleikar, boules, karate og taekwondo.

Hugmyndina um íþróttakeppni smáþjóða Evrópu má rekja aftur til ársins 1981. Það var útbreidd skoðun að íþróttakeppni þar sem smáþjóðir öttu kappi saman gæti orðið til þess að efla anda og hugsjón ólympíuhreyfingarinnar og treysta jafnframt vináttubönd þjóðanna. Þátttökurétt eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af löndunum níu. Þeir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985, en síðan hafa þeir verið haldnir í Mónakó (1987), Kýpur (1989), Andorra (1991), Möltu (1993), Lúxemborg (1995), Íslandi (1997), Liechtenstein (1999), San Marínó (2001), Möltu (2003), Andorra (2005), Mónakó (2007), Kýpur (2009), Liechtenstein (2011), Lúxemborg (2013), Íslandi (2015), San Marínó (2017) og Svartfjallalandi (2019). Með leikunum í San Marínó árið 2017 hófst þriðja umferð leikanna.

Íslenskir íþróttamenn hafa verið sigursælir í gegnum tíðina á Smáþjóðaleikum. Íslendingar eru með 1259 verðlaun og þar af 498 gullverðlaun, en efsta sæti verðlaunatöflunnar fer eftir fjölda gullverðlauna. Kýpverjar eru í öðru sæti, með 489 gullverðlaun og samtals 1283 verðlaun og Lúxemborgarar í þriðja sæti með 395 gullverðlaun og samtals 1163 verðlaun.