Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Tillaga til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í samráðsgátt

05.02.2020

Drög að tillögu forsætisráðherra til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi og hagsmunaaðilum gefst kostur á að senda inn umsögn við efni tillögunnar.

Tillöguna má finna hér.

Stýrihópi um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi var falið að vinna að heildarendurskoðun á forvörnum og fræðslu í menntakerfinu og í samfélaginu með það að markmiði að útrýma kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru kynbundu ofbeldi. Skipuð var sérstök ráðgefandi nefnd til að sinna þessu verkefni í því skyni að tryggja aðkomu stofnana sem hafa lykilhlutverki að gegna við að koma á virkum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Nefndin stóð fyrir víðtæku samráði við félagasamtök, fræðafólk, stofnanir og einstaklinga sem hafa sérstaka þekkingu á forvarnamálum. ÍSÍ átti fulltrúa í þessari nefnd, Ásu Ólafsdóttur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og meðstjórnanda í framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Þetta er í fyrsta sinn sem mótuð er tillaga að heildstæðri stefnu um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og á hún sér stoð í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, bæði hvað varðar réttindi barna og réttindi kvenna. Í tillögunni er gert ráð fyrir að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og eigi sér einnig stað innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva, íþrótta- og æskulýðsstarfs og í öðru tómstundastarfi. Í því skyni verði ráðist í gerð námsefnis fyrir öll skólastig, auk fræðsluefnis um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum.

Forsætisráðherra mun bera stjórnsýslulega ábyrgð á aðgerðáætluninni í náinni samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, vegna aðkomu þeirra ráðuneyta og undirstofnana.

ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína að kynna sér ofangreind drög í samráðsgáttinni og nýta rétt sinn til að koma með ábendingar.