Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Skýrsla starfshóps um skattlagningu á starfsemi sem fellur undir þriðja geirann

05.02.2020

Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra um skattalegt umhverfi þriðja geirans hefur skilað skýrslu til ráðherra. Markmið vinnu hópsins var að leggja fram tillögur til að styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans.

Á vef ráðuneytisins kemur fram að niðurstaða hópsins sé að útvíkka ætti skattalega hvata og lögfesta nýja þegar kemur að starfsemi þriðja geirans. Hópurinn horfði einkum til þess að finna leiðir til að auka skattalega hvata gefenda til lögaðila sem starfa að almannaheillum, styrkja starfsemi þeirra lögaðila með skattalegum ívilnunum og efla og styrkja skattalega umgjörð og skráningu slíkra lögaðila hjá Skattinum.

Alþjóðlegur samanburður sýndi að víðast hvar í nágrannalöndum okkar væru skattalegir hvatar víðtækari fyrir gefendur vegna fjárframlaga eða annarra framlaga til slíkrar starfsemi. Auk þess væru slíkir hvatar víðtækari fyrir þiggjendur slíkra framlaga. Var það mat hópsins að tækifæri væru til þess að útvíkka skattalega hvata, annars vegar fyrir gefendur og hins vegar fyrir þau félög sem teljast til almannaheilla.

Skýrslu starfshópsins má finna hér.

Í hópnum sátu Willum Þór Þórsson alþingismaður, sem stýrði starfi hópsins, Börkur Arnarson framkvæmdastjóri, Guðrún Inga Sívertsen hagfræðingur, Guðrún Ögmundsdóttir hagfræðingur, Helga Jónsdóttir skrifstofustjóri og Óli Björn Kárason alþingismaður. Með hópnum störfuðu lögfræðingar ráðuneytisins.

Ef tillögur starfshópsins verða samþykktar þá má ætla að það yrði til verulegra hagsbóta fyrir íþróttahreyfinguna, myndi efla starfsskilyrði rekstrareininga hennar og færa skattalegar ívilnanir nær því sem er í nágrannalöndum okkar.