Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Reykjavíkurleikarnir – stórmót ársins

23.01.2020

Reykjavíkurleikarnir er árleg íþróttahátíð sem fer fram í 13. sinn dagana 23. janúar til 2. febrúar næstkomandi. Keppt verður í 23 íþróttagreinum þar sem reiknað er með þátttöku hátt í 1000 erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Keppnin fer að mestu fram í Laugardalnum og nágrenni hans en einnig í Egilshöll, á Skólavörðustíg og víðar. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, mun setja leikana í hádeginu í dag. 

Keppnisgreinar leikanna í ár eru mjög fjölbreyttar og hafa aldrei verið fleiri. Á dagskránni eru akstursíþróttir, bæði í hermum og brautarakstri, badminton, borðtennis, crossfit, dans, frjálsíþróttir, brekkusprettur á hjóli, enduro hjólakeppni, júdó, karate, keila, klifur, kraftlyftingar, listskautar, ólympískar lyftingar, pílukast, rafíþróttir, skotfimi, skvass, sund, taekwondo og þríþraut.

Keppnisdagskráin skiptist niður á tvær helgar og verða lokahátíðir í Laugardalshöllinni báða sunnudagana. Einnig er ráðstefna um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum sem fram fer í Laugardalshöll 23. janúar kl.14:00-16:00 hluti af dagskránni. Ráðstefnan er ætluð öllum þeim sem koma að íþrótta- og æskulýðshreyfingunni, skólasamfélaginu og öðrum sem áhuga hafa á málefninu.

Megin áherslur ráðstefnunnar:

  • Niðurstöður rannsóknar um aðkomu sveitarfélaga að afreksíþróttum.
  • Jafnréttismál innan íþróttafélaga.
  • Börn af erlendum uppruna og íþróttir.
  • Jafnrétti fatlaðra barna í íþróttum.
  • Viðhorf og óskir barna og unglinga.
  • Trans fólk og íþróttir.

Fyrirlesarar eru:
Ágústa Edda Björnsdóttir, Ástþór Jón Ragnheiðarson, Hugrún Vignisdóttir, Ingi Þór Einarsson, Joanna Marcinkowska og Salvör Nordal.

Nánari upplýsingar um ráðstefnu, fyrirlesara og skráningu hér.

Uppbókað er á ráðstefnuna en hún verður í beinni útsendingu á youtube rás Reykjavíkurleikanna hér.

Að ráðstefnunni standa: Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Háskólinn í Reykjavík og RIG – Reykjavík International Games.  

Myndin með fréttinni er frá keppni í fimleikum á Reykjavíkurleikunum 2019. Ljósmyndari er Kjartan Einarsson.

Myndir með frétt