Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Námskeið í stjórnendaþjálfun haldið hjá ÍSÍ

14.01.2020

Dagana 8.-10. janúar stóð ÍSÍ fyrir stjórnendanámskeiði sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Námskeiðið sátu 32 einstaklingar sem vinna í íþróttahreyfingunni og var námskeiðið fullt. Gunnar Jónatansson stjórnendamarkþjálfi var aðalkennari á námskeiðinu, en aðrir kennarar voru þeir Birkir Smári Guðmundsson lögfræðingur ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sem jafnframt var námskeiðsstjóri. Skipulag námskeiðsins var í höndum starfsmanna Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ.

Fyrirlestur Andra var um Alþjóðaólympíuhreyfinguna og Birkir Smári fjallaði um lagaumhverfi íþrótta á Íslandi og alþjóðlega. Gunnar Jónatansson sá alveg um kennsluna í tvo daga og lét þátttakendur vinna saman í pörum og smærri hópum. Viðfangsefnin voru margvísleg og má þar nefna verkefnastjórnun og tímastjórnun, hlutverk og ábyrgð starfsmanna, skipulag tölvupósts, fundir og fundarstjórn og stjórnun teyma. Gott og jákvætt andrúmsloft skapaðist á námskeiðinu og voru þátttakendur mjög virkir allan tímann.

Námskeiðið er vottað af Alþjóðaólympíuhreyfingunni og styrkt af Ólympíusamhjálpinni og fengu allir viðurkenningu frá IOC í lok námskeiðsins. Til stendur að halda annað svona námskeið síðar á árinu.

Myndir með frétt