Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Undirritun samstarfssamnings um samskiptaráðgjafa

13.01.2020

Samstarfssamningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Domus Mentis - Geðheilsustöðvar um hlutverk samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs var undirritaður í ráðuneytinu í dag.

Ný lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs byggja á tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Lögin heimila ráðherra að fela þriðja aðila að sinna hlutverki samskiptaráðgjafa og á þeim grundvelli var ráðist í útboð á þjónustunni. Þrír aðilar sóttust eftir því að annast ráðgjöfina og að loknu formlegu mati var Domus Mentis – Geðheilsustöð talin hæfust.
Samskiptaráðgjafanum er m.a. ætlað að leiðbeina einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem varða t.d. einelti, ofbeldi eða kynbundna eða kynferðislega áreitni. Þá mun ráðgjafinn einnig veita íþrótta- og æskulýðsfélögum og -samtökum fræðslu og ráðgjöf.

„Það er afar mikilvægt að tryggja framvindu þessa máls og ánægjulegt að við getum með markvissari hætti en áður stuðlað að auknu öryggi iðkenda. Samfélagið okkar er að ganga í gegnum vitundarvakningu um málefni sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun. Það er okkar markmið að tryggja að allir njóti verndar í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi“, sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við undirritun samningsins.

Domus Mentis veitir einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og stofnunum víðtæka þjónustu sem stuðlar að bættri líðan og geðheilsu fólks. Hjá fyrirtækinu starfar fagfólk með breiða þekkingu á félags- heilbrigðis- og réttarvörslukerfinu, sálfræði, geðlæknisfræði, hjúkrunar- og kynfræði og félagsráðgjöf.
Fyrirhugað er að ráðið verði í stöðu samskiptaráðgjafans á næstunni og viðkomandi hefji formlega störf í næsta mánuði. Þá er einnig ráðgert að opnaður verði fræðsluvefur um hlutverk ráðgjafans og verksvið.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ voru viðstaddir undirritunina fyrir hönd ÍSÍ. 

Á myndinni er ráðherra ásamt fulltrúum Domus Mentis.