Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Júlían Íþróttamaður ársins 2019

28.12.2019

Júlían J. K. Jóhannsson kraftlyftingamaður var útnefndur Íþróttamaður ársins 2019 af Samtökum íþróttafréttamanna í kvöld í Hörpu í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem Júlían hlýtur viðurkenninguna Íþróttamaður ársins. Mart­in Her­manns­son körfuknatt­leiksmaður hjá Alba Berlín hafnaði í 2. sæti og knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir varð í 3. sæti.

Júlían er nú í fimmta sinn valinn Kraftlyftingakarl ársins, en hann hefur haslað sér völl sem einn af sterkustu keppendum heims í +120 kg flokki. Júlían vann bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur á heimsmeistaramóti í Dubaí í nóvember sl. en þar bætti hann jafnframt sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu með 405,5 kg og tryggði sér gullverðlaun í greininni. Heildarþyngdin sem Júlían lyfti á heimsmeistaramótinu voru 1148 kg., en það er mesta þyngd sem íslenskur kraftlyftingamaður hefur lyft. Í maí sl. hlaut Júlían silfurverðlaun á Evrópumeistarmóti fyrir samanlagðan árangur en hlaut þar einnig gull í réttstöðu. Hann lýkur í ár sínu þriðja keppnistímabili í opnum flokki og er í þriðja sæti á heimslista IPF Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +120kg. flokki.

Það íþróttafólk sem fékk flest atkvæði í kjörinu þetta árið og var í efstu tíu sætunum er í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar
Arnar Davíð Jónsson, keilari úr Keilafélagi Reykjavíkur
Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni
Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari úr ÍR
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton
Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni
Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Alba Berlín í Þýskalandi
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi

Nánari upplýsingar um kjör íþróttamanns ársins eru aðgengilegar á heimasíðu Samtaka íþróttafréttamanna.

Samtök íþróttafréttamanna veittu nú í áttunda sinn viðurkenningu til þjálfara ársins og var það Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálf­ari karlaliðs Gróttu í knatt­spyrnu, sem hlaut þann heiður. Viðurkenning til liðs ársins fór til kvennaliðs Vals í körfuknatt­leik.

Þrír efstu þjálfararnir í ár eru þessir í stafrófsröð:
Alfreð Gíslason, handboltaþjálfari hjá Kiel í Þýskalandi
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fótboltaþjálfari hjá Gróttu
Patrekur Jóhannesson, handboltaþjálfari hjá Selfossi

Efstu þrjú liðin sem komu til greina þetta árið eru:
Karlalið Selfoss í handbolta
Kvennaliðs Vals í handbolta
Kvennalið Vals í körfubolta

ÍSÍ óskar verðlaunahöfum kvöldsins til hamingju með viðurkenningar sínar.

 

Myndir með frétt