Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Már og Bergrún íþróttafólk ÍF

13.12.2019

Í gær fór fram hóf Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) á Radisson Blu Hóteli Sögu þar sem kjöri á íþróttafólki ársins 2019 úr röðum fatlaðra var lýst. Már Gunnarsson sundmaður og frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir voru útnefnd íþróttamaður og íþróttakona ÍF fyrir árið 2019. Þetta er annað árið í röð sem Bergrún verður íþróttakona ársins en í fyrsta sinn sem Már hlýtur nafnbótina. Á hófinu hlaut Ásta Katrín Helgadóttir Hvataverðlaun ÍF 2019.

Már Gunnarsson
Már á einkar glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum. 

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir
Bergrún á glæsilegt keppnisár að baki þar sem heimsmeistaratitill hennar í langstökki ungmenna (U20) í Nottwil í Sviss ber hvað hæst. Bergrún hafnaði í 5. sæti á heimsmeistaramóti IPC í langstökki þar sem hún náði sínu besta stökki á alþjóðlegu stórmóti er hún stökk 4,26 metra. Bergrún stefnir ótrauð að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hennar verður það í fyrsta sinn sem hún keppir á leikunum. 

 

Hvataverðlaunin 2019
Ásta Katrín Helgadóttir hefur í áratugi starfað með ÍF að fjölmörgum verkefnum en hún hlaut í gær Hvatabikarinn fyrir sérverkefni sem tengist leikskólastarfi og hreyfiþjálfun barna.

Árið 2015 hóf ÍF innleiðingu verkefnisins YAP eða Young Athlete Project sem er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics samtakanna. YAP hefur að markmiði að stuðla að snemmtækri íhlutun á sviði hreyfifærni, sérstaklega fyrir börn með sérþarfir eða frávik. Ísland hefur farið þá leið að leita samstarfs við leikskóla og heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur verið leiðandi samstarfsaðili frá upphafi. Í starfi sínu þar sem íþróttakennari hefur Ásta Katrín sýnt frumkvæði og leitt innleiðingarferlið með markvissri hreyfiþjálfun og rannsóknum á árangri. Hún hefur náð að tengja hugmyndafræði YAP við dagleg verkefni og nám í samstarfi við leikskólakennara og með virkum stuðningi leikskólastjórans, Þóru Sigrúnar Hjaltadóttur.

Ásta Katrín hefur aðstoðað framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi við kynningarstarf á landsvísu, skipulagt verklega sýnikennslu á YAP kynningardögum og kynnt árangursríka aðferðafræði innleiðingar í heilsuleikskólanum Skógarási. Þar hafa öll börnin notið góðs af en sérstakur markhópur hefur verið börn með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, hreyfivirkni eða ADHD og einnig nemendur sem eru t.d. óöruggir eða tvítyngdir. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsuleikskólanum Skógarási hafa sýnt framfarir í hreyfifærni en einnig jákvæð áhrif YAP verkefnisins á félagsleg samskipti, vellíðan, sjálfsöryggi og gleði, sjálfsstjórn og tjáningu. Rannsókn á viðhorfi foreldra leikskólabarna í Skógarási til YAP verkefnisins, sýndi fram á að foreldrar töldu sig meðvitaðri um að auka og fylgjast með hreyfiþroska barnsins og þeir töldu að YAP verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á hreyfiþroska, samskipti, félagsfærni og hegðun. Rannsókn sýndi einnig að kennarar leikskólans töldu YAP verkefnið hafa haft mjög jákvæð áhrif á hreyfiþroska og félagsfærni og einnig jákvæð áhrif á samskipti og hegðun nemenda. Markmið er að YAP verkefnið styrki börnin, geri þau hæfari til að stíga fyrstu skrefin í íþróttum og stuðli þannig að jákvæðri upplifun og þátttöku allra barna í íþróttastarfi. Þetta verkefni er því talið mjög mikilvægt til framtíðar fyrir starfsemi ÍF.

Nánar má lesa um YAP verkefnið hér.

Reglugerð um Hvataverðlaun ÍF 2019
Hvataverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilum sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu.