Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Íþróttafræðinám við Háskólann í Reykjavík hefst í Vestmannaeyjum

28.10.2019

Það er ánægjuleg frétt fyrir íþróttahreyfinguna að frá haustönn 2020 verði hægt að nema íþróttafræði á háskólastigi í Vestmannaeyjum. Í dag undirrituðu Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, samning þess efnis, en námið er fjarnám úr Háskólanum í Reykjavík sem kennt verður í Vestmannaeyjum. Náminu er ætlað að nýtast sem grunnur að áframhaldandi námi í íþróttafræði.

Fyrsta skólaárið verða sex námskeið kennd í fjarkennslu í gegnum fjarfundabúnað í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Auk þess munu kennarar koma til Eyja tvisvar á önn til að vinna með nemendum. Tvö verkleg námskeið verða kennd í Vestmannaeyjum. Nemendur munu sækja tvö þriggja vikna námskeið í Reykjavík en taka öll skrifleg próf í Þekkingarsetri Vestmannaeyja.

Háskólinn í Reykjavík ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd námsins og ráða umsjónamann námsins í Vestmanneyjum, sem búsettur verður í Eyjum. Vestmannaeyjabær mun leggja til íþróttamannvirki til kennslu í verklegum greinum, svo sem handknattleik, knattspyrnu og sundi, en jafnframt leggja til aðstöðu fyrir nemendur til að stunda námið í gegnum fjarfundabúnað. Ráðuneytið mun leggja til fjármagn, ráðgjöf og annast eftirfylgni með verkefninu.

Það er afar jákvætt að verið sé að efla háskólanám á landsbyggðinni og að nám í íþróttafræði sé í boði víðar en áður. Einnig er sérlega ánægjulegt að það skuli vera í íþróttabæ eins og í Vestmannaeyjarbæ.