Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Fundur með fulltrúum Akureyrarbæjar, ÍBA og VMÍ

25.10.2019

Framkvæmdastjórn ÍSÍ fundaði í vikunni með fulltrúum Akureyrarbæjar, Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) og Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands (VMÍ). Fundað var í fundaraðstöðu í Íþróttahöllinni við Skólastíg á Akureyri. Fyrir hönd Akureyrarbæjar sátu fundinn þau Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri Samfélagssviðs, Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður Frístundaráðs og Ellert Örn Erlingsson deildarstjóri íþróttamála. Fyrir hönd ÍBA sóttu fundinn þeir Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður og Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri.

Farið var yfir nýlega stefnu Akureyrarbæjar og ÍBA í íþróttamálum og framtíðarsýn íþróttamála til 2022. Mikil áhersla er lögð á að bærinn sé og verði heilsueflandi samfélag og er mikill metnaður lagður í að ná þeim markmiðum sem fram koma í stefnunni. Góðar umræður urðu í hópnum um innihald stefnunnar og samstarf sveitarfélagsins og íþróttahreyfingarinnar.

Þá komu fulltrúar VMÍ á fundinn, þau Þórunn Harðardóttir formaður, Siguróli Magni Sigurðsson, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir og Margrét Baldvinsdóttir. Staða miðstöðvarinnar var rædd sem og möguleg framtíðarverkefni.

Formaður og framkvæmdastjóri ÍBA fóru síðan yfir starfsemi bandalagsins sem fagnar 75 ára afmæli í desember nk. og hlutverk bandalagsins og aðildarfélaga þess í stefnu Akureyrarbæjar. Starf bandalagsins hefur markvisst verið eflt eftir að nýja stefnan var samþykkt og hefur það skilað faglegra starfi og meiri krafti í starfsemina. Þeir fóru yfir verkefni bandalagsins og sýndu tölfræði yfir umfang hreyfingarinnar á Akureyri og það mikla framboð íþrótta sem býðst iðkendum á svæðinu.

Eftir mjög svo fróðlega yfirferð allra ofangreindra kom Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar til fundar við hópinn í almennt spjall og ráðagerð yfir kaffi og góðu meðlæti.

Þennan sama dag hélt framkvæmdastjórn ÍSÍ svo hefðbundinn stjórnarfund í húsakynnum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni áður en haldið var aftur til höfuðborgarinnar. Til gamans má geta að tveir meðlimir í stjórn ÍSÍ eru búsettir á Norðurlandi, Ingi Þór Ágústsson á Akureyri og Þórey Edda Elísdóttir á Hvammstanga.

Myndir með frétt