Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Fólkið og félagsskapurinn stendur upp úr

09.10.2019

Annar hlaðvarpsþáttur verkefnisins Sýnum karakter hefur nú litið dagsins ljós. Sýnum karakter er verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands. Í hlaðvarpi Sýnum karakter má hlusta á samtöl við áhugavert fólk í íþróttahreyfingunni á Íslandi ræða um starfið á víðum grundvelli ásamt áhugaverðustu verkefnunum.

Föruneyti Sýnum karakter gerði sér ferð á Ísafjörð í tengslum við Ólympíuhlaup ÍSÍ og til að eiga samtal við framkvæmdastjóra Héraðssambands Vestfirðinga - HSV, Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur. Sigríður Lára er með bein í nefinu og því tilvalið að sjá og heyra hvernig hún sýnir karakter í sínu lífi og starfi. Samtalið við Sigríði Láru má hlusta á hér á hlaðvarpssíðu Sýnum karakter. Einnig er hægt að lesa stutta samantekt um Sigríði Láru á vefsíðu Sýnum karakter hér.

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir er Ísfirðingur í húð og hár og hefur búið á Ísafirði nánast alla tíð. Þar vill hún vera og hvergi annarsstaðar. Hún er sjúkraþjálfari og var búin að vinna sem sjúkraþjálfari við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í mörg ár þegar hún sá stöðu framkvæmdastjóra HSV auglýsta fyrir fimm árum og ákvað að slá til. Ástæðuna segir hún vera þá að íþróttaáhugi hennar sé mikill, enda stundaði hún skíði og fótbolta af kappi á yngri árum. Hún hefur komið aðeins að skíðaþjálfun og þrekþjálfun fyrir skíðafólk, verið sjúkraþjálfari íþróttaliðanna, mest í fótboltanum og líkar það vel, og hefur verið viðriðin foreldrastarf eftir að börnin hennar byrjuðu að stunda íþróttir. Upp úr stendur félagsskapurinn og fólkið sem hún hefur kynnst í gegnum íþróttalífið. En hvað hefurbaklandið mikið að segja í sambandi við það að koma krökkum af stað í íþróttir og styðja við þá? Samtalið má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpssíðu Sýnum karakter.


Héraðssamband Vestfirðinga - HSV
Héraðssamband Vestfirðinga varð til við sameiningu Íþróttabandalags Ísafjarðar ogHéraðssambands Vestur-Ísfirðinga árið 2000. HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi og hefur 16 aðildarfélög innan sinna vébanda og eru félagsmenn á fjórða þúsund. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina. HSV hefur eflst og dafnað með árunum.