Íþróttir eru sigurför fyrir sjálfsmyndina
„Íþróttaiðkun sonar okkar hefur ekki bara haft jákvæð áhrif á hann sjálfan heldur á alla fjölskylduna. Hann er líka hamingjusamari. Hann kynntist samherjum sínum í lífinu og þjálfurum sem eru orðnir þátttakendur í lífi hans og okkar,“ segir fjölmiðlakonan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir. Sonur Jóhönnu er Hjalti Geir Guðmundsson, sundmaður úr íþróttafélaginu Öspinni og einn fjögurra íslenskra sundkappa sem valdir voru til að keppa fyrir hönd Íslands á heimsleikum Special Olympics í Abú Dabí í mars á þessu ári. Jóhanna Vigdís verður með erindi á ráðstefnu Sýnum karakter á laugardag. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter? Jóhanna Vigdís mun þar fjalla um íþróttir og keppni sem sigurför fyrir sjálfsmyndina. En hvað á hún við með því?
Jóhanna Vigdís segir þetta setningu sem Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, hafi sagt um þá sigurför sem þátttakan er fyrir keppendur á heimsleikunum. „Sjálfsmyndin skiptir okkur öll máli en fyrir fatlaða skiptir hún öllu máli. Það margt sagt óskaplega fallegt um þátttöku barna með sérþarfir í íþróttum en því miður er veruleikinn ekki alltaf sá sami. En virðum viljann og vonandi batnar þetta. Ég mæli með íþróttaiðkun allra en hún skiptir fatlaða gríðarlegu máli, hvort sem við erum að tala um afreksfólk eða almenna keppendur. Allir geta verið með – og eiga að vera með,“ segir hún.
Ráðstefna Sýnum karakter verður laugardaginn 5. október í Háskólanum í Reykjavík á milli klukkan 9:00 – 12:30. Miðaverð er 2.500 krónur. Mikilvægt er að tryggja sér sæti í tíma því uppselt hefur verið á viðburði Sýnum karakter í gegnum tíðina. Skráning og greiðsla fer fram hér.
Dagskráin er gríðarlega fjölbreytt og margt áhugaverðra erinda fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum. Flutt verða erindi sem tengjast breyttu keppnisfyrirkomulagi og því hvernig hægt er að virkja og byggja upp karakter hjá börnum og ungmennum. Á meðal annarra sem flytja erindi á ráðstefnunni eru dr. Viðar Halldórsson, hugmyndasmiður Sýnum karakter, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands, Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttasviði Háskólans í Reykjavík, og Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Hann ætlar að ræða um það hvernig UMSB er að innleiða verkfærakistu Sýnum karakter í starfsemi sinni.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar er hvatt til að mæta. Sýnum karakter verkefnið er samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands og er Háskólinn í Reykjavík samstarfsaðili ráðstefnunnar.
Dagskrá
Kl. 09:30 Setning
Kl. 09:40 Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur og hugmyndasmiður Sýnum karakter: Virkjum karakter - hugmyndir og hindranir.
Kl. 10:15 Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ: Að lyfta fjöldanum - nýtt mótafyrirkomulag í áhaldafimleikum.
Kl. 10:30 Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ: Spilað til sigurs.
Kl. 10:45 Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttafræðasviði HR: Handboltaleikir fyrir börn.
Kl. 11:00 Kaffihlé.
Kl. 11:20 André Lachance, Sport for life Canada: Competition is a good servant but a poor master.
Kl. 12:00 Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB. Hvernig gerum við gott félag betra? Innleiðing á Sýnum karakter.
Kl. 12:15 Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður og móðir fatlaðs íþróttamanns: Sigurför fyrir sjálfsmyndina.
Ráðstefnustjóri er Pálmar Ragnarsson.