Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Forvarnardagurinn 2019

02.10.2019

Forvarnardagurinn er í dag og er nú haldinn í fjórtánda sinn. Í tengslum við daginn er vakin athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Í ár eru viðfangsefni verkefnisins aukin notk­un rafretta og orku­drykkja, auk þess sem áhersla er lögð á mik­il­vægi svefns. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins og er beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í verkefninu. 

Lykilpunktar Forvarnardagsins

  • Ungmenni sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna.
  • Ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falla mun síður fyrir fíkniefnum.
  • Því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau verði fíkniefnum að bráð.

 

Í morgun fór forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson, í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar og Grunnskóla Borgarness og í hádeginu í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Þar tók forsetinn þátt í umræðum með nemendum um forvarnir og hvað ungmenni geti gert til að stuðla að heilbrigðu lífi. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er einn af samstarfsaðilum Forvarnardagsins og var Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, viðstödd í Varmárskóla í dag í tilefni af Forvarnardeginum ásamt öðrum samstarfsaðilum verkefnisins. Með í för voru jafnframt góðir gestir frá Mexíkó sem komnir voru hingað til lands til að kynna sér forvarnarstarfið á Íslandi.

Myndir frá Forvarnardeginum 2019 og kynningarfundi Forvarnardagsins 2019, sem fram fór sl. mánudag í Fellaskóla, má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Öll framkvæmd Forvarnardags í skólum landsins er á vegum skólans sjálfs samkvæmt leiðbeiningum frá verkefnisstjórn Forvarnardagsins. Hugmyndir að framkvæmd á Forvarnardegi er að fá nemendur til að ræða saman um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum.

Í ár gefst nemendum í 9. bekk og 1. bekk í framhaldsskóla, kostur á að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Skilafrestur í keppninni rennur út að kvöldi 11. nóvember nk. og verðlaun verða veitt fyrir þrjár stuttmyndir: bestu myndina, þá skemmtilegustu og þá frumlegustu. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu. Myndbandið sem fylgir fréttinni útskýrir nánar stuttmyndasamkeppnina.

 

 

Embætti landlæknis stendur að Forvarnardeginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. 

 

 

Myndir með frétt