Vinnustofan Keppni með tilgang
Dagana 3. og 4. október á 2. hæð í nýju Laugardalshöllinni fer fram vinnustofa ætluð þeim sem sjá um fræðslu-og/eða mótamál í íþróttahreyfingunni. Yfirskrift vinnustofunnar er Meaningful Competition sem í lauslegri þýðingu gæti verið „Keppni með tilgang“ og lítur að keppni hjá börnum og ungmennum.
Kanadamaðurinn André Lachance frá Sport for Life hefur umsjón með stofunni. André hefur unnið með Hafnaboltasambandi Kanada síðan 2001 í þróunarmálum og þjálfaramenntun og sem þjálfari kvennalandsliðs Kanada. Að auki er hann prófessor við Háskólann í Ottawa og heldur fyrirlestra og vinnustofur á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur á síðastliðnu ári bæði haldið vinnustofur fyrir Íþróttasamband Svíþjóðar (RF) og Danmerkur (DIF).
Markmið með vinnustofunni er að:
- Auka þekkingu á þroskaferli barna og ungmenna – LTAD (Long Term Athlete Development).
- Skoða hvernig keppnisfyrirkomulag hefur áhrif á innihald þjálfunar.
- Skoða og þróa sértækar keppnisreglur.
- Fá innsýn í hvernig unnið er með keppni í öðrum íþróttagreinum og í öðrum löndum.
- Vinna með það hvernig haga á samskiptum í breytingaferli.
Hámarksfjöldi þátttakenda er 40 manns og stendur vinnustofan frá kl. 13:00 - 17:00 fimmtudaginn 3. október og 9:00-16:00 föstudaginn 4. október. Mikið er lagt upp úr hópavinnu. Verð er 12.500 kr. Innifalið er hádegismatur, kaffi og léttar veitingar.
Sýnum karakter ráðstefna
Laugardaginn 5. október verður fjórða Sýnum karakter ráðstefnan haldin í Háskólanum í Reykjavík þar sem André Lachance verður einn af fyrirlesurum. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter?“ Nánari dagskrá kemur innan tíðar.
Verð fyrir ráðstefnuna er 2.500 kr. Vert er að geta þess að uppselt hefur verið á allar fyrri Sýnum karakter ráðstefnur til þessa.
Smelltu hér til þess að tryggja þér miða á vinnustofuna og/eða á ráðstefnuna.
Hvað er Sýnum karakter?
Sýnum karakter er átaksverkefni ÍSÍ og UMFÍ um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni.
Smelltu hér til þess að kynna þér verkefnið frekar á vefsíðu Sýnum karakter.