Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter?

01.10.2019

Laugardaginn 5. október nk. fer fjórða Sýnum karakter ráðstefna Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) fram. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter? Dagskrá er fjölbreytt og áhugaverð. Flutt verða erindi sem tengjast breyttu keppnisfyrirkomulagi og því hvernig hægt er að virkja og byggja upp karakter hjá börnum og ungmennum.

„Ég held að verkfærakista Sýnum karakter skili okkur betra fólki út í samfélagið. Ef vel tekst til fá krakkarnir betra sjálfstraust í íþróttum og læra að vinna áfram með það. Ef við fáum enn betri einstaklinga út úr þessu af því að þjálfararnir eru meðvitaðir um það hvernig þeir eiga að laða það besta fram úr iðkendum sínum þá hefur okkur tekist verkið,“ segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Þar á bæ hefur hafist innleiðing á verkfærakistu verkefnisins Sýnum karakter í starfi félagsins. Nokkur ungmenna- og íþróttafélög vinna um þessar mundir að innleiðingu verkfærakistunnar.

Sigurður segir hlutverk héraðssambanda að styðja við aðildarfélög sín, þjálfara og iðkendur og kynna til sögunnar nýjungar sem geti gagnast starfinu. Hann segir verkfærakistu Sýnum karakter geta verið einn af lyklunum að því að gera gott félag betra, það gangi þvert í gegnum deildir og sameini bæði þjálfara og iðkendur. „Öll félög og allar deildir UMSB hafa verið að vinna eftir sömu markmiðum í september. Fyrsti liðurinn úr verkefninu sem við vinnum með er áhugahvöt. Síðar munum við snúa okkur að markmiðasetningu og öðrum þáttum. Ég sendi efni á þjálfara, þeir vinna eftir því og síðan fundum við öll saman ásamt kennurum skólanna um málið á starfsdegi í október,“ segir Sigurður. Hann er fullviss um að séu tólin úr verkfærakistu Sýnum karakter innleidd á markvissan hátt í starf félagsins þá geti það haft jákvæð áhrif á iðkendum í öllum deildum og þeir fengið við það hæfni sem þeir geti nýtt sér í daglegu lífi.

Sigurður verður á meðal fyrirlesara á ráðstefnu Sýnum karakter. Á ráðstefnunni mun dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur og hugmyndasmiður Sýnum karakter fjalla um hugmyndir og hindranir karaktera, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, fjalla um nýtt mótafyrirkomulag í áhaldafimleikum og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður og móðir fatlaðs íþróttamanns, fjalla um gildi íþrótta fyrir hann og aðra. Þetta er aðeins brot af fyrirlesurunum.

Ráðstefnustjóri er enginn annar en körfuboltasnillingurinn og fyrirlesarinn Pálmar Ragnarsson.

Ráðstefnan fer fram í Háskólanum í Reykjavík þann 5. október og stendur hún frá kl. 09:30 – 12:30.

Verð fyrir gesti er 2.500kr. Skráning og greiðsla fer fram hér.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar innan íþrótta og ungmennafélagshreyfingarinnar er hvatt til að mæta á ráðstefnuna.

Dagskrá
Kl. 09:30 Setning
Kl. 09:40 Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur og hugmyndasmiður Sýnum karakter: Virkjum karakter - hugmyndir og hindranir.
Kl. 10:15 Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ: Að lyfta fjöldanum - nýtt mótafyrirkomulag í áhaldafimleikum.
Kl. 10:30 Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ: Spilað til sigurs.
Kl. 10:45 Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttafræðasviði HR: Handboltaleikir fyrir börn.
Kl. 11:00 Kaffihlé.
Kl. 11:20 André Lachance, Sport for life Canada: Competition is a good servant but a poor master.
Kl. 12:00 Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB. Hvernig gerum við gott félag betra? Innleiðing á Sýnum karakter.
Kl. 12:15 Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður og móðir fatlaðs íþróttamanns: Sigurför fyrir sjálfsmyndina.

Á mynd með fréttinni má sjá Sigurð Guðmundsson, framkvæmdastjóra UMSB.

Myndir með frétt