Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

EYOF 2019 - Þriðji keppnisdagur

24.07.2019

Þá er þriðja keppnisdegi lokið á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Kristín Helga Hákonardóttir keppti í 200m skriðsundi. Synti hún á tímanum 2:07,59 sem er bæting á hennar besta árangri. Varð hún í 25 sæti í greininni og var fyrsti varamaður í úrslit.

Í liðakeppni stúlkna í fimleikum kepptu þær Hildur Maja Guðmundsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir og Laufey Birna Jóhannsdóttir. Endaði Laufey Birna í 67. sæti með einkunnina 42,700; Guðrún Edda varð í 73. sæti með 40,050 í einkunn; Hildur Maja varð í sæti 74 með einkunnina 40,000. Alls tóku 79 stúlkur þátt í liðakeppninni.

Í hástökki pilta keppti Kristján Viggó Sigfinnsson, með því að stökkva 1.99m tryggði hann sig inn í úrslit greinarinnar. Fara þau fram á föstudaginn.

Í handknattleik pilta léku okkar drengir við Króata. Endaði leikurinn 21-24 fyrir Króatíu sem þýðir að Ísland endaði í 3. sæti riðilsins og leikur á föstudag við heimamenn í Aserbaídsjan um hvort liðið keppi um 5. sæti á mótinu. Liðið sem tapar þeirri viðureign leikur um 7. sæti mótsins.

Á morgun fimmtudag er komið að keppni í hópstarti hjá hjólreiðakrökkunum, stúlkurnar verða ræstar klukkan 10.00 að staðartíma (06.00) og drengirnir kl. 17.00 (13.00). Eva María Baldursdóttir keppir í undankeppni hástökks stúlkna kl. 9.40 að staðartíma (05.40). Um kvöldið mun Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppa í úrslitum sleggjukastkeppninnar. Keppnin byrjar kl. 19.40 (15.40 að íslenskum tíma).

 

Fylgjast má með Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, verðlaunaafhendingum og lokahátíð, á vefsíðu EOC hér.

Á myndasíðu ÍSÍ hér má sjá myndir frá íslenska hópnum.

Vefsíða hátíðarinnar 

Facebook síða hátíðarinnar.

Myndir með frétt