Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Opnun nýrra höfuðstöðva IOC

24.06.2019

Í gær opnaði Alþjóðaólympíunefndin (IOC) nýjar höfuðstöðvar sínar, Ólympíuhúsið, í Lausanne í Sviss. Dagurinn í gær, 23. júní, var kjörinn til þess að opna dyrnar að nýjum höfuðstöðvum því Alþjóðaólympíunefndin átti 125 ára afmæli. Nefndin var stofnuð 23. júní árið 1894 af Pierre de Coubertin og er Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur af því tilefni þennan dag ár hvert. Athöfnin var fjölmenn en um 700 manns mættu. Viðstaddir voru m.a. 206 forsetar Ólympíunefnda, þeirra á meðal Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ var viðstödd ásamt framkvæmdastjórn EOC.

Hingað til hefur starfsfólk IOC unnið á fjórum stöðum vítt og dreift um Lausanne. Í Ólympíuhúsinu munu 500 manns starfa saman undir einu þaki. Er það í takt við Olympic Agenda 2020, sem leggur áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Nýja byggingin er ein sú sjálfbærasta af öllum í heiminum og hefur hlotið þrjár alþjóðlegar gæðaviðurkenningar fyrir.

Thomas Bach, forseti IOC, sagði við tilefnið að byggingin hefði verið hönnuð á þann hátt að endurspegla markmið IOC sem er að gera heiminn að betri stað í gegnum íþróttir. Þarna kemur Ólympíufjölskyldan og allt starfsfólk IOC saman sem sýnir einingu og samheldni.

Á Youtube síðu IOC má sjá myndband af Ólympíuhúsinu.