Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ á laugardaginn

13.06.2019

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í þrítugasta sinn laugardaginn 15. júní og er hlaupið langstærsti almenningsíþróttaviðburðurinn á Íslandi á hverju ári. Konur á öllum aldri koma saman á hlaupadegi og eiga skemmtilega stund þar sem sumar hlaupa en aðrar ganga. Í 30 ár hafa þúsundir kvenna um allt land notið þess að hreyfa sig saman í Kvennahlaupinu og í því hafa konur getað sameinað tvo mikilvæga þætti í lífinu, hreyfingu og samveru. Hlaupið er á meira en 80 stöðum um allt land sem og erlendis. Kvennahlaupið hefur meðal annars verið haldið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Þýskalandi, Belgíu, Sviss, Lúxemborg, Mallorca, víða í Bandaríkjunum, Mósambík og Namibíu. Hvar sem konur eru niðurkomnar þá eru þær partur af einhverju stærra þegar þær taka þátt í Kvennahlaupinu.

Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ og var það haldið í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir kom með hugmyndina frá Finnlandi og þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni. Þarna var kjörið tækifæri til að vekja áhuga kvenna á líkamsrækt og útiveru. Markmiðið var að höfða til kvenna á öllum aldri þar sem ekki yrði keppt til sigurs heldur áttu konur að fá að hlaupa, ganga eða skokka mismunandi vegalengdir eftir því sem þær kysu sjálfar. Þannig er það enn þann dag í dag, engin tímataka og allir fara á sínum hraða þá vegalengd sem þeir kjósa.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allir komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Það sem er svo skemmtilegt við Kvennahlaupið er að þar koma saman konur á öllum aldri. Mjög algengt er að margir ættliðir, vinkonur eða systur fari saman í hlaupið og geri sér jafnvel glaðan dag saman að hlaupi loknu. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í hlaupið heldur bara að mæta á hlaupastað. Þátttökugjald er 1.000 kr. fyrir 12 ára og yngri og 2.000 kr. fyrir 13 ára og eldri.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur fólk á öllum aldri til að taka þátt og hlakkar til að sjá sem flesta í afmælishlaupinu. Alla hlaupastaði má finna inn á www.kvennahlaup.is

Einnig þakkar ÍSÍ Sjóva, aðal samstarfsaðilum Kvennahlaupsins, fyrir stuðninginn sem og öðrum samstarfsaðilum; Ölgerðinni, Nivea og Morgunblaðinu.

Nánari upplýsingar um hlaupið veitir Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Sími: 514 4000 / 692 9025, hronn@isi.is.