Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

9

Forseti IOC á Smáþjóðaleikum

01.06.2019

Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), Thomas Bach, heimsótti leikaþorp Smáþjóðaleikanna í dag í fylgd Dusan Simonovic, forseta Ólympíunefndar Svartfjallalands og Igor Vusurovic, framkvæmdastjóra leikanna 2019. Forsetinn skoðaði vistarverur þátttakenda og gaf sér góðan tíma til að spjalla við keppendur og fylgdarlið frá þátttökuþjóðunum. Hann kíkti einnig á þá viðburði sem voru í gangi í Budva í dag, svo sem tenniskeppnina og blak.
Forsetinn var himinlifandi með andrúmsloftið í leikaþorpinu og sagði stemmninguna rifja upp góða tíma þegar hann var sjálfur íþróttamaður. Hann sagði ljóst að Ólympíuandinn lifði góðu lífi í leikaþorpinu. Íþróttafólk frá mörgum löndum væri þar saman komið á einum stað til að kynnast, skemmta sér og virða hvert annað. Forsetinn sagði kraftinn sem komi frá íþróttum vel sýnilegan á Smáþjóðaleikunum og senda falleg skilaboð út í heiminn.
Thomas Bach nýtti heimsóknina á Smáþjóðaleikana til að bjóða forsetum og framkvæmdastjórum ólympíunefndanna sem standa að Smáþjóðaleikunum til kvöldverðar í gærkvöldi sem forseti og framkvæmdastjóri ÍSÍ sóttu. Hann mun svo mæta til lokahátíðar leikanna í kvöld en athöfnin hefst kl. 21:30 að staðartíma.