Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Svekkjandi tap gegn Mónakó

31.05.2019

Karlalandsliðið í blaki mætti Mónakó í dag á Smáþjóðaleikunum. Hvorugt liðanna hafði unnið leik á mótinu til þessa. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Alexander Arnari Þórissyni í díó, Mána Matthíassyni í uppspil og Lúðvíki Má Matthíassyni í stöðu frelsingja.

Strákarnir okkar komu sterkir til leiks strax í fyrstu hrinu og voru 7:2 yfir þegar Mónakó tók leikhlé. Þeir létu leikhlé ekkert á sig fá og héldu áfram að auka við forskotið og voru 15:8 yfir þegar Mónakó nýtti seinna leikhlé hrinunnar. Ísland hafði mikla yfirburði í hrinunni og kláraði hana 25:15.

Mónakó menn voru greinilega ekki sáttir við sína frammistöðu í fyrstu hrinu og komu af krafti inn í aðra og voru yfir 4:1 þegar Ísland tók fyrra leikhlé hrinunnar og 15:7 yfir þegar Ísland tók seinna leikhléð. Íslensku strákarnir áttu ágætis skorpu undir lokin en það dugði ekki til og Mónakó vann hrinuna 25:16.

Byrjunarlið Íslands var það sama í þriðju hrinu og í fyrstu tveimur. Hrinan fór jöfn af stað en Mónakó seig fram úr og Ísland tók leikhléin sín í stöðunni 12:9 og aftur í 16:12. Það hleypti smá lífi í mannskapinn en það dugði ekki til og Mónakó vann hrinuna 25:21.

Byrjunarliði Íslands var breytt í fjórðu hrinu þegar Benedikt Baldur Tryggvason kom inn á fyrir Ævar Frey. Ísland náði ágætis forskoti í upphafi hrinunnar en Mónakó jafnaði 7:7. Eftir það var hrinan mjög jöfn en Mónakó náði yfirhöndinni undir lokinn og vann hrinuna 25:22 og þar með leikinn 3:1. Fjórir leikmenn voru stigahæstir, allir með 12 stig. Theódór, Hafsteinn, Alexander og Ævarr.

Síðasti leikur strákanna á mótinu er á morgun gegn Kýpur kl. 12:00 (14:00 ísl).