Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Bjarni og Jón Hlíðar hlutu Gullmerki ÍSÍ

30.05.2019

Ársþing Júdósambands Íslands (JSÍ) fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 25.maí síðastliðinn.

Jóhann Másson, sem verið hefur formaður s.l. 6 ár, var endurkjörinn formaður sambandsins með lófataki. Jóhann sagðist við það tækifæri vera stoltur af stuðningi sinna félaga sem hvetji hann áfram til góðra starfa fyrir hönd sambandsins.

Á þinginu var Bjarni Friðriksson kjörinn heiðursformaður JSÍ með lófataki þingfulltrúa. Bjarni lætur nú af störfum hjá JSÍ eftir næstum þrjátíu ára starf bæði sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri sambandsins.  Þeir Bjarni Friðriksson og félagi hans til áratuga í starfi fyrir JSÍ, Jón Hlíðar Guðjónsson, voru sæmdir gullmerki ÍSÍ á þinginu.  Þráinn Hafsteinsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu og afhenti hann þeim Bjarna og Jóni Hlíðari heiðursviðurkenningarnar við það tækifæri. Þráinn minntist á það í sínu ávarpi að hann hafi einmitt verið í sendinefnd Íslands í Los Angeles 1984 þegar Bjarni vann hin eftirminnilegu bronsverðlaun á ÓL 1984.