Samantekt frá öðrum degi Smáþjóðaleika
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann viðureign sína gegn Möltu í dag, 80:76, eftir framlengingu. Stigahæstur í dag var Elvar Már Friðriksson með 33 stig. Tók hann 7 fráköst. Kristinn Pálsson var með 17 stig, þar af 4 af 8 í þriggja og Gunnar Ólafsson bætti við 9 stigum og Dagur Kár Jónsson var með 7 stig.
Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik beið lægri hlut fyrir sterku liði Svartfjallalands 81:73 í öðrum leik sínum á Smáþjóðaleikunum. Íslenska liðið átti góðan leik gegn svartfellska liðinu. Staðan var jöfn í hálfleik 35:35. Helena Sverrisdóttir skoraði 35 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir 14, Þóra Kristín Jónsdóttir 7, Hildur Björg Kjartansdóttir 6, Sara Rún Hinriksdóttir 6, Sigrún Björg Ólafsdóttir 3 og Bryndís Guðmundsdóttir 2.
Dagurinn í sundkeppninni skilaði Íslendingum þrennum gullverðlaunum, einum silfurverðlaunum, tvennum bronsverðlaunum, HM lágmarki og einni bætingu á tíma auk þess sem Anton Sveinn nánast tryggði sér farseðilinn til Tókýó 2020. Nánar má lesa um sundkeppnina hér.
Fyrsta keppnisdegi af þremur í frjálsíþróttum fór fram í dag. Íslendingar áttu tólf keppendur á þessum fyrsta keppnisdegi og hlutu þau ein gullverðlaun, þrjú silfur og eitt brons. Nánar má lesa um frjálsíþróttakeppnina hér.
Íslenska karlalandsliðið í blaki tapaði fyrir San Marínó í dag 3:1. Íslendingar unnu fyrstu hrinu 25:21. Töpuðu síðan 25:19, 25:21 og 25:20. Stigahæstir í íslenska liðinu voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 15 stig og Ævarr Freyr Birgisson með 13.
Íslenska kvennalandsliðið í blaki vann sigur á San Marínó í dag 3:0. Ísland vann 26:24, 25:16 og 25:11. Stigahæstar í íslenska liðinu voru Thelma Dögg Grétarsdóttir með 14 stig og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 11 stig.
Keppni í tennis átti að hefjast í gær, en vegna mikillar rigningar var keppni frestað. Í dag rigndi einnig og var brugðið á það ráð að þurrka vellina með svömpum. Aðstæður voru metnar reglulega yfir daginn, en seinnipartinn þótti skipuleggjendum í lagi að hefja tenniskeppnina. Rafn Kumar keppti á móti Alex Knaff frá Lúxemborg, en honum var raðað nr.2 í mótið. Rafn spilaði vel, en Knaff meiddist í leiknum og varð því að gefa leikinn. Rafn er því kominn áfram í 8 liða úrslit. Anna Sól Grönholm keppti við Danae Petroula frá Mónakó. Hún tapaði fyrstu lotu, en var yfir í annarri lotu þegar að stoppa þurfti leikinn vegna rigningar. Leikurinn mun halda áfram á morgun ef veður leyfir.
Liðakeppni í borðtennis hélt áfram í dag. Íslenska kvennalandsliðið mætti heimakonum frá Svartfjallalandi í síðasta leik riðlakeppninnar, en eftir 3-0 tap gegn þeim er ljóst að landsliðið komst ekki upp úr riðli sínum og er því úr leik.
Karlalandslið Íslands mætti einnig Svartfjallalandi í síðasta leik sínum í riðlakeppninni. Fyrir leikinn var ljóst að sigurvegarinn úr rimmunni færi í undanúrslitin en tapliðið yrði úr leik. Að lokum fór svo að Svartfjallaland vann rimmuna og Ísland situr því eftir og hefur þar með lokið leik sínum.
Vefsíða leikanna