Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Hreykinn og stoltur Heiðursforseti ÍSÍ

29.05.2019

Ellert B. Schram, Heiðursforseti ÍSÍ, er staddur á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í boði ÍSÍ til að fylgjast með íslenska hópnum í keppni á leikunum. Þegar starfsmenn ÍSÍ hittu Ellert í dag þá var hann nýkominn í sundhöllina í Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands, til að fylgjast með keppni í sundi, eftir að hafa horft á kvennalandsliðið í blaki vinna góðan sigur á San Marínó í Budva.

„Ég er þakklátur ÍSÍ fyrir að gefa mér tækifæri til að sækja leikana. Ég fór síðast á Smáþjóðaleika fyrir um það bil 20 árum, þegar ég var forseti ÍSÍ, og nýt þess að fá aftur tækifæri til að sækja þessa skemmtilegu leika. Það er yndislegt að fylgjast með öllu unga fólkinu hér sem er að standa sig vel í þeim öllum þeim mörgu íþróttagreinum sem leikarnir bjóða upp á. Það er líka skemmtilegt að upplifa að það koma alltaf nýjar og nýjar kynslóðir af efnilegu og góðu íþróttafólki. Ég nýt þess að vera hér innan um kunningja úr íþróttahreyfingunni og ekki síður fulltrúa stjórnar ÍSÍ og starfsfólk ÍSÍ, sem heldur vel utan um íslenska hópinn. Ég er afar hreykinn og stoltur af þessu öllu,“ sagði Ellert sem sjálfur er eldhress og íþróttamannslegur og hefur sést skokkandi léttfættur hér í Budva undan rigningarskúrum sem koma og fara með jöfnu millibili hér í Svartfjallalandi þessa dagana.