Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

ÍSÍ kolefnisjafnar alla starfsemi sína

04.05.2019

 

Starfsemi Íþrótta- og Ólympíusambandsins fylgja mikil ferðalög. Sérstaklega er það vegna þátttöku í ýmsum leikum á vegum Ólympíuhreyfingarinnar en 12 ólympísk verkefni fara fram á hverri fjögurra ára Ólympíuöðu. Þegar mest er þá sendir ÍSÍ um 200 þátttakendur og aðstoðarfólk á einstakan viðburð, þ.e. Smáþjóðaleikarnir. ÍSÍ er einnig í miklu alþjóðlegu samstarfi vegna undirbúnings leika og annarra samskipta við Ólympíuhreyfinguna. Allt þetta skilur eftir sig kolefnisfótspor.

Í ávarpi Lárusar L. Blöndal við þingsetningu 74. Íþróttaþings ÍSÍ kom fram að í ljósi hlutverks ÍSÍ í samfélaginu þá telji framkvæmdastjórn ÍSÍ að sambandinu beri að sýna fulla ábyrgð og vera til fyrirmyndar í öllu starfi sambandsins. Það eigi svo sannarlega við þegar kemur að þeirri vá sem þróun loftslagsmála er. Forsetinn skýrði frá því að framkvæmdastjórn ÍSÍ hefði ákveðið að leita samninga um að binda allt það kolefni sem til fellur vegna starfsemi ÍSÍ og mun ganga frá slíkum samningum á næstu vikum. Lárus hvatti, í ávarpi sínu, alla sambandsaðila ÍSÍ til að feta í fótspor ÍSÍ og kolefnisjafna vegna sinnar starfsemi hafi þeir ekki þegar tekið þá ákvörðun.

Kolefnisbinding
Á síðustu fimmtíu árum hefur styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu aukist gríðarlega. Að óbreyttu mun sú aukning halda áfram af vaxandi þunga sem gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir umhverfi og lífsskilyrði jarðarbúa. Þennan vöxt má fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis auk eyðingar skóga og hnignunar gróðurvistkerfa. Margþættur ávinningur felst í því að fyrirtæki geri grein fyrir kolefnisfótsporum sem starfsemi þess veldur og leiti þannig allra leiða til bættrar nýtingar og kolefnisjafni þá losun sem óhjákvæmilega á sér stað. Kolefnisbinding felur í sér að binda kolefni úr andrúmsloftinu með skógrækt en tré binda kolefni en leysa súrefni út í andrúmsloftið.

Myndir með frétt