Íþróttamaður ársins 2018 - Topp tíu
Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands halda sameiginlegt hóf í tengslum við kjör Íþróttamanns ársins 2018. Hófið verður haldið þann 29. desember í Silfurbergi í Hörpu og hefst kl. 18:00.
Dagskráin samanstendur af afhendingu viðurkenninga ÍSÍ til íþróttamanna og íþróttakvenna sérgreina íþrótta og kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2018. Afhending viðurkenninga íþróttafólks sérsambanda fer fram í beinni útsendingu á RÚV2 frá kl. 18:00. Bein útsending frá kjöri íþróttamanns ársins fer fram frá kl. 19:40 á RÚV. Íþróttafólk sérsambanda fyrri ára má sjá hér á vefsíðu ÍSÍ og fyrrum íþróttamenn ársins má sjá á vefsíðu Samtaka íþróttafréttamanna.
Útnefnt verður í Heiðurshöll ÍSÍ, sem sjá má hér. Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar. Með þessu verkefni vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.
Íþróttamaður ársins er nú kjörinn í 63. sinn en þjálfari og lið ársins í sjöunda sinn.
Samtök íþróttafréttamanna hafa tilkynnt hvaða tíu íþróttamenn fengu flest atkvæði í kjöri Íþróttamanns ársins. Þessir tíu íþróttamenn eru eftirtaldir, í stafrófsröð:
Alfreð Finnbogason, knattspyrna
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttir
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleikur
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna
Haraldur Franklín Magnús, golf
Jóhann Berg Guðmundsson, knattspyrna
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingar
Martin Hermannsson, körfuknattleikur
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna
Valgarð Reinhardsson, fimleikar
Þessi þrjú lið koma til greina sem lið ársins, í stafrófsröð:
ÍBV, Íslands- og bikarmeistari í handbolta karla
Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum, silfurverðlaunahafi á EM
Landsliðið í golfi, Evrópumeistari í blönduðum liðum
Þessir þrír koma til greina í kjörinu á þjálfara ársins, í stafrófsröð:
Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik, Íslands- og bikarmeistari
Kristján Andrésson, þjálfari sænska karlalandsliðsins í handknattleik, silfur á EM
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, Íslands- og bikarmeistari
Listi yfir íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ 2018 birtist á vefsíðu ÍSÍ kvöldið 29. desember.