Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
21

Íþróttafólk Reykjavíkur 2018

14.12.2018

Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í gær. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 40. sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í sjötta sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2018 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu og varð í fjórða sæti samanlagt á HM í nóvember. Hann setti einnig Íslandsmet í réttstöðulyftu og samanlögðu á mótinu. Á EM vann hann til gullverðlauna í réttstöðulyftu. Þá setti hann auk þess Evrópumet í klassískri réttstöðulyftu á árinu.

Íþróttakona Reykjavíkur 2018 er frjálsíþróttakonan Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr Íþróttafélagi Reykjavíkur. Guðbjörg Jóna varð Evrópumeistari unglinga í 100 m hlaupi og sigraði á Ólympíuleikum ungmenna í 200 m hlaupi á árinu og sett nýtt Íslandsmet í greininni á sama móti í þremur unglingaflokkum og fullorðinsflokki. Hún vann einnig til bronsverðlauna á Evrópumeistaramóti unglinga í 200 m hlaupi og setti nýtt Íslandsmet í greininni á sama móti. Hún er í 2. sæti á Evrópulista unglinga og 12. sæti á heimlista unglinga í 200 m hlaupi.

Íþróttalið Reykjavíkur 2018 er lið Fram í handknattleik kvenna sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Á myndinni með fréttinni má sjá frá vinstri: Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Íþróttakona Reykjavíkur 2018, Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram og Íþróttaliðs Reykjavíkur 2018, Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, Íþróttakarl Reykjavíkur 2018 og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson.

Tólf einstaklingar og fjórtán lið frá fjórtán félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2018. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.

Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2018:
• Fram - Íslands,- og bikarmeistarar kvenna í handknattleik
• Fylkir - Íslandsmeistarar í kumite
• GR - Íslandsmeistarar kvennaliða í golfi
• ÍR - bikarmeistarar í frjálsíþróttum
• ÍR - Íslands- og bikarmeistarar í karlaflokki í keilu
• Júdófélag Reykjavíkur - bikarmeistarar í sveitakeppni karla
• Keilufélag Reykjavíkur - Íslands,- og bikarmeistarar kvenna í keilu
• KR - Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
• KR - Íslandsmeistarar í liðakeppni kvenna í borðtennis
• Skylmingafélag Reykjavíkur - Íslandsmeistarar liðakeppni karla
• TBR - Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
• Valur - Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
• Víkingur - Íslands- og bikarmeistarar í borðtennis
• Þórshamar - Íslandsmeistarar karla í kata

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2018:
• Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
• Ásgeir Sigurgeirsson, Skotfélagi Reykjavíkur
• Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
• Birkir Már Sævarsson, knattspyrnudeild Vals
• Freydís Halla Einarsdóttir, skíðadeild Ármanns
• Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
• Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautardeild Ægis
• Guðni Valur Guðnason, frjálsíþróttadeild ÍR
• Haraldur Franklín Magnús, Golfklúbbi Reykjavíkur
• Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingadeild Ármanns
• Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur
• Sveinbjörn Iura, júdódeild Ármanns

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin.

ÍSÍ óskar þessu flotta íþróttafólki til hamingju með árangurinn.