Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Frábær ráðstefna um jákvæða íþróttamenningu

02.11.2018

 

Uppselt var á ráðstefnuna „Jákvæð íþróttamenning“ sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands héldu ráðstefnuna í samvinnu við Háskólann í Reykjavík undir merkjum verkefnisins Sýnum karakter sem ÍSÍ og UMFÍ standa saman að. Áherslan á ráðstefnunni var á félagslegar og sálrænar hliðar íþrótta og rætt var um leiðir til að byggja upp jákvæða menningu í íþróttastarfinu. Ráðstefnugestir komu víða að og var fjöldi gesta frá Neskaupstað, Ísafirði, úr Dölunum, Keflavík og víðar sem gerði sér ferð til að fræðast og ræða saman um það hvernig hægt er að gera gott starf enn betra.

Charlotte Ovefelt, jafnréttisráðgjafi sænska íþróttafélagsins IF Brommapojkarna, hélt áhugavert erindi um staðalímyndir og viðhorf í félaginu. Knattspyrna hefur miðast við karla frá upphafi og fara mestu fjármunirnir til karladeilda. Unnið er meðvitað að því innan sænska íþróttafélagsins IF Brommapojkarna að opna félagið fyrir alla iðkendur og bjóða upp á æfingar fyrir bæði kynin. Í samræmi við breytta stefnu opnar félagið íþróttahús sín og hallir fyrir yngri kynslóðir iðkenda þegar þörfin er mest, á kvöldin og um helgar. Eins er farið að bjóða upp á æfingar fyrir stúlkur sem hafa aldrei áður verið í skipulögðu íþróttastarfi. Ungmenni fá jafnvel að vinna á viðburðum IF Brommapojkarna.

Á meðal annarra sem héldu erindi á ráðstefnunni var dr. Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands. Viðar sagði mikilvægt að breyta orðræðunni í íþróttum. „Við þurfum að nota aðra orðræðu og breyta tungumálinu til að byggja upp jákvætt og andrúmsloft,“ sagði hann og mælti með því að hætt verði að nota orð á borð við klúður og mistök og tala frekar um tilraunir.

Fyrirlesararnir voru sjö talsins. Auk Charlotte og Viðars héldu þau Markús Máni Michaelsson Maute, Ása Inga Þorsteinsdóttir hjá Stjörnunni, Karl Ágúst Hannibalsson hjá FSu og Jóhannes Guðlaugsson hjá ÍR erindi.

Síðastur á stokk steig dr. Chris Harwood, íþróttasálfræðingur og prófessor við Loughborough háskóla í Englandi. Harwood mun auk þess stýra vinnustofu alla helgina með dr. Karl Steptoe, íþróttasálfræðingi sem m.a. vinnur fyrir enska úrvalsdeildarliðið Leicester City. Vinnustofan er hugsuð fyrir yfirþjálfara eða reynslumikla þjálfara sem eru í því að móta starf deildarinnar eða félagsins, óháð íþróttagrein.

Enn eru laus pláss í vinnustofuna. Vinnustofan er hugsuð fyrir yfirþjálfara eða reynslumikla þjálfara sem eru í því að móta starf deildarinnar eða félagsins, óháð íþróttagrein. Miða á vinnustofuna má nálgast hér.


Upptaka frá ráðstefnunni og erindunum verður aðgengileg á vefsíðu Sýnum karakter. Sjá meira á www.synumkarakter.is

 

Myndir með frétt