Ólympískir viðburðir 2018-2020
Markmið og verkefni Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ er meðal annars að hafa yfirumsjón með öllu sem lýtur að afrekssmálum ÍSÍ og/eða einstakra sérsambanda og að sjá um undirbúning og mál er varða Ólympíuleika, Ólympíuleika ungmenna, Smáþjóðaleika, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og önnur þau alþjóðamót sem ÍSÍ tekur þátt í. Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.
Leiðarljós afreksstefnu ÍSÍ er að bæta það umhverfi sem afreksíþróttir búa við. Afreksstefnu ÍSÍ má sjá hér.
Ólympíuleikar ungmenna
Ólympíuleikar ungmenna (The Youth Olympic Games, YOG) eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 14 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikar fullorðinna. Fyrstu sumarleikarnir fóru fram í ágúst 2010 í Singapore og fyrstu vetrarleikarnir fóru fram í janúar 2012 í Austurríki. Ísland hefur átt þátttakendur á leikunum frá upphafi.
Næstu sumarleikar munu fara fram í Buenos Aires í Argentínu í október 2018 og næstu vetrarleikar í Lausanne í Sviss 2020.
Nánar um Ólympíuleika ungmenna má sjá hér.
Evrópuleikar
Evrópuleikarnir 2019 munu fara fram í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Leikarnir munu þá fara fram í annað sinn, en fyrstu Evrópuleikarnir fóru fram í Bakú í Azerbaijan í júní árið 2015. Leikarnir eru haldnir á vegum Evrópusambands ólympíunefnda (EOC).
Nánar um Evrópuleika má sjá hér.
Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar
Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram annað hvert ár. Árið 2019 fer vetrarhátíðin fram í Sarajevó í Bosníu og Hersegóvínu. Sumarólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður síðan haldin í Minsk í Hvíta-Rússlandi árið 2019.
Nánar um Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar má sjá hér.
Smáþjóðaleikar
Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af þátttökulöndunum níu; Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Þátttökurétt eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Næstu leikar fara fram í Svartfjallalandi árið 2019. Smáþjóðaleikarnir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985, en síðan hafa þeir verið haldnir í Mónakó (1987), Kýpur (1989), Andorra (1991), Möltu (1993), Lúxemborg (1995), Íslandi (1997), Liechtenstein (1999), San Marínó (2001), Möltu (2003), Andorra (2005), Mónakó (2007), Kýpur (2009), Liechtenstein (2011), Lúxemborg (2013), Íslandi (2015) og San Marínó (2017).
Nánar um Smáþjóðaleikana má sjá hér.
Ólympíuleikar
Ísland tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum í London 1908. Næstu Sumarólympíuleikar fara fram í Tókýó í Japan árið 2020.