Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Viðbragðsáætlun ÍSÍ

28.09.2018

 

Viðbragðsáætlun Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er grunnur fyrir viðbragðsáætlanir íþróttafélaga innan íþróttahreyfingarinnar. Æskilegt er að íþróttafélög deili með sér hugmyndum og reynslu á þessu sviði og komi sér upp eigin viðbragðsáætlun þar sem atriði úr þessu skjali eru höfð til hliðsjónar.

Viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum pdf. 

Viðbragðsáætlun þessi tekur til barna og starfsmanna/sjálfboðaliða í starfi innan íþróttahreyfingarinnar. Þó svo að hér sé verið að fjalla um málefni barna og unglinga viljum við einfalda málið með því að nota orðið börn yfir einstaklinga á aldrinum 0-18 ára. Orðið starfsmaður verður hér eftir notað um alla þá sem koma að barnastarfi innan íþróttahreyfingarinnar það er þjálfara, sjálfboðaliða, stjórnir, starfsmenn íþróttafélaga, starfsmanna íþróttamannvirkja og foreldra. Yfirmenn og aðrir samstarfsmenn geta gegnt mikilvægu stuðningshlutverki ef starfsmaður verður fyrir áfalli. Ennfremur getur stuðningur starfsmanna við börn sem lenda í áfalli haft mikið að segja. Oft felst mesta hjálpin í að vera góður hlustandi, vera til staðar og gefa viðkomandi tíma. Við megum aldrei vanmeta gildi þess að ættingjar, vinir, vinnufélagar og aðrir í samfélaginu sýni þeim sem eiga um sárt að binda samkennd og stuðning í orði og verki. Aðstæður geta þó verið þannig að utanaðkomandi aðstoð sé nauðsynleg. Mjög mikilvægt er að starfsmenn haldi þagnarheit og trúnað sinn við þá sem lenda í áfalli.

Hér er hvorki fjallað um einkenni sorgar né einkenni sjúkdóma. Bent skal á að hægt er að finna slíkar upplýsingar í bókum, á veraldarvefnum o.s.frv. Í mörgum tilfellum er hér bent á aðstoð kirkju, presta en hafa ber í huga að það hentar ekki í öllum tilfellum. Taka ber tillit til annarra trúarbragða og trúarskoðana.

Þessi viðbragðsáætlun er staðfærð og byggð á áætlun sem ÍTR tók saman árið 2008.