Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

24

UDN 100 ára - Silfurmerki ÍSÍ veitt

04.09.2018

Ungmenna- og íþróttasamband Dalamanna og norður Breiðfirðinga (UDN) hélt upp á 100 ára afmæli sambandsins í Dalabúð í Búðardal laugardaginn 1. september sl. Sambandið var stofnað 24. maí árið 1918. Vel var mætt í afmælið og mikið um dýrðir. Ungir iðkendur í glímu sýndu íþróttina við mikla hrifningu gesta. Það var Svana Hrönn Jóhannsdóttir formaður og framkvæmdastjóri Glímusambands Íslands sem stýrði þessum ungu glímuiðkendum og tók reyndar líka nokkur glímutök með krökkunum. Stjórnarfólk las upp úr gömlum fundargerðum UDN sem vakti mikinn hlátur viðstaddra. 

ÍSÍ veitti fimm aðilum innan UDN Silfurmerki ÍSÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta til margra ára. Þessir aðilar eru Jóhanna Sigrún Árnadóttir, Svanborg Guðbjörnsdóttir, Gústaf Jökull Ólafsson, Ingvar Samúelsson og Bryndís Karlsdóttir. Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri sótti afmælisfagnaðinn fyrir hönd ÍSÍ og afhenti Silfurmerki ÍSÍ með dyggri aðstoð stjórnarfólks UDN.

Gaman er að geta þess að það var þema hjá stjórnarfólki að vera í gömlum fatnaði frá UDN, íþróttagöllum eða öðru, enda er mikið um gamlan fatnað uppihangandi í andyri félagsheimilisins.

Myndir með frétt