Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Móttaka til heiðurs þátttakendum á EM U18 í frjálsíþróttum

11.07.2018

Frjálsíþróttasamband Íslands hélt móttöku í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær, 10. júlí, til heiðurs þátttakendum í EM U18 í frjálsíþróttum, sem haldið var Ungverjalandi á dögunum og þá ekki síst til heiðurs Evrópumeistara U18 í 100 m spretthlaupi, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur úr ÍR. Guðbjörg Jóna hlaut einnig bronsverðlaun á mótinu, í 200 m spretthlaupi. Aðrir keppendur náðu einnig góðum árangri á mótinu. Elísabet Rut Rúnarsdóttir náði í úrslit í sleggjukasti og Valdimar Hjalti Erlendsson náði einnig inn í úrslit í kringlukasti. Á mótinu kepptu einnig Birna Kristín Kristjánsdóttir í langstökki og Helga Margrét Haraldsdóttir í kúluvarpi. Flott mót hjá íslensku keppendunum og dýrmæt reynsla fyrir framtíðina. ÍSÍ óskar þeim öllum til hamingju með árangurinn á mótinu og óskar Guðbjörgu Jónu sérstaklega til hamingju með glæsilegan árangur.

Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ ávarpaði heiðursgestina og aðra viðstadda í móttökunni og færði Guðbjörgu Jónu blómvönd að gjöf frá ÍSÍ. Meðfylgjandi mynd er af íslensku keppendunum og þjálfurum þeirra ásamt Frey Ólafssyni formanni Frjálsíþróttasambandsins og Sigríði Jónsdóttur. Á myndina vantar Helgu Margréti Haraldsdóttur kúluvarpara sem ekki komst til móttökunnar vegna veikinda.