Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

24

Ólympíusamhjálpin styrkir íþróttafólk vegna undirbúnings fyrir Tókýó 2020

25.06.2018

Í dag var gengið frá samningum Ólympíusamhjálparinnar við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafólks þeirra vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Um er að ræða styrki vegna átta einstaklinga frá sex sérsamböndum ÍSÍ.

Heildarverðmæti samninga gæti numið allt að 21 m.kr. (miðað við gengi dagsins í dag) en um er að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega að upphæð 1.000 bandaríkjadali vegna kostnaðar við æfingar og keppnir.

Styrkþegar Ólympíusamhjálparinnar vegna Tókýó 2020 eru:
• Aníta Hinriksdóttir / Frjálsíþróttasamband Íslands
• Anton Sveinn McKee / Sundsamband Íslands
• Ásgeir Sigurgeirsson / Skotíþróttasamband Íslands
• Eygló Ósk Gústafsdóttir /Sundsamband Íslands
• Guðlaug Edda Hannesdóttir / Þríþrautarsamband Íslands
• Hilmar Örn Jónsson / Frjálsíþróttasamband Íslands
• Valgarð Reinhardsson / Fimleikasamband Íslands
• Þuríður Erla Helgadóttir / Lyftingasamband Íslands

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 18 einstaklinga frá sjö sérsamböndum. Allir þessir einstaklingar hafa það á stefnu sinni að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og hafa hafið stífan og kostnaðarfrekan undirbúning vegna þessa. Að þessu sinni eru það átta einstaklingar sem hljóta styrk, sem er sami fjöldi og hlaut undirbúningsstyrk fyrir leikana í Ríó 2016. Styrktímabil hófst þann 1. maí 2018 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.

Heildarkostnaðaráætlun styrkþega fram að leikum er margföld þeirri upphæð sem styrkir Ólympíusamhjálparinnar og ÍSÍ nema, en lauslega áætlað má reikna með að árlegur kostnaður á hvern einstakling í fremstu röð í heiminum sé um 10 m.kr.

Árangur íslensks afreksíþróttafólks skiptir miklu máli, en á bak við árangurinn eru einstaklingar sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu sem og auknu fjármagni. Með auknu fjárframlagi ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ og breyttum áherslum í afreksíþróttastarfi sérsambanda og ÍSÍ er reynt að styðja enn betur við umgjörð og möguleika íþróttafólks til að ná árangri á heimsmælikvarða.

Sérsambönd ÍSÍ og styrkþegar munu á næstu tveimur árum leggja mikið í að vinna sér keppnisrétt á leikana í Tókýó, bæði fjármuni sem ferðalög og tíma. Er það von ÍSÍ að sem flestir nái því markmiði sínu að vinna sér inn þátttökurétt.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Örn Andrésson, formaður Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ kynntu úthlutunina. 

Fleiri myndir frá úthlutuninni má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.