Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Fimleikasamband Íslands 50 ára

18.05.2018

Fimleikasamband Íslands (FSÍ) fagnaði 50 ára afmæli í gær þann 17. maí 2018. Á sama degi árið 1968 stofnuðu fulltrúar frá níu héraðssamböndum Fimleikasamband Íslands. Í tilefni afmælisins efndi sambandið til veislu og bauð fimleikafólki og öðrum áhugasömum að mæta í Laugardalshöll, en til stóð að slá heimsmet í handstöðu. Fyrra metið var 399 manns og var stefnan sett á 500 manns. Í gær mættu hins vegar 607 einstaklingar í höllina, sem tóku handstöðu á sama tíma og slógu heimsmetið. Nú bíður Fimleikasamband Íslands þess að Heimsmetabók Guinness staðfesti metið. Fimleikafélög úti á landi tóku þátt í hátíðinni með því að halda sín eigin handstöðupartý, með köku í boði FSÍ og fimleikagleði.

Tækifærið var einnig notað til að undirrita samning við Reykjavíkurborg um framlag borgarinnar vegna EuroGym 2020 sem haldið verður í Laugardalnum árið 2020. Þar munu koma saman fjögur til fimm þúsund ungmenni á aldrinum 13-18 ára, sem stunda fimleika á sínum forsendum en áherslan á EuroGym er á sýningar og smiðjur en ekki keppni.

Margir af fyrrum formönnum og stofnendum Fimleikasambandsins mættu til afmælishófsins og minntust upphafsára sambandsins. Sambandið hefur verið í örum vexti, ekki síst nú síðustu árin eftir uppbyggingu sérstakra fimleikahúsa á landsvísu.

Þráinn Hafsteinsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ sóttu viðburðinn fyrir hönd sambandsins. Þráinn flutti ávarp og kveðjur frá forseta ÍSÍ, stjórn og starfsfólki ÍSÍ og færði Fimleikasambandinu listmun frá Koggu að gjöf frá ÍSÍ í tilefni af stórafmælinu.

Myndir með frétt