Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Nýtt íþrótta- og fimleikahús í Kópavogi

15.05.2018

Íþróttahús við Vatnsendaskóla í Kópavogi var vígt við hátíðlega athöfn á föstudaginn síðastliðinn, á afmæli Kópavogsbæjar. Nýja húsið er sérhannað fyrir þjálfun í hópfimleikum og mun Íþróttafélagið Gerpla nýta húsið ásamt Vatnsendaskóla sem verður með íþróttakennslu í húsinu. Húsið er stórglæsilegt og frábær viðbót fyrir Gerplu með sína blómlegu fimleikastarfsemi. Sýningarhópur frá Gerplu í hópfimleikum var með atriði við vígsluna, Skólahljómsveit Kópavogs lék nokkur lög og kór Vatnsendaskóla söng.
Ný íþróttamannvirki setja aukinn kraft í íþróttastarfsemi á því svæði sem þau rísa og ekki að efa að aðgengi íþróttahreyfingarinnar að þessu glæsilega mannvirki mun efla íþróttastarfið í Kópavogi og þá ekki síst hópfimleikana.

Jón Finnbogason úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var viðstaddur vígslu hússins, fyrir hönd ÍSÍ.

Á myndinni eru frá vinstri:  Sigurbjörg Helgadóttir nemandi í Vatnsendaskóla, Guðrún Soffía Jónasdóttir skólastjóri Vatnsendaskóla, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs, Harpa Þorláksdóttir formaður Gerplu og Emma Leifsdóttir iðkandi úr Gerplu (Ljósmynd/Kópavogsbær).