Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

Mjög góð þátttaka í vorfjarnámi ÍSÍ í þjálfaramenntun

11.05.2018

Vorfjarnámi ÍSÍ í þjálfaramenntun er nú lokið á öllum þremur stigum námsins, 1. 2. og 3. stigi. Þátttakan var mjög góð, 37 þjálfarar luku námi á 1. stigi, 10 þjálfarar luku 2. stigi og 17 þjálfarar luku 3. stigi, samtals 64 þjálfarar. Um er að ræða almennan hluta menntunarinnar sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Sérgreinahluta menntunarinnar sækja nemendur hjá viðkomandi sérsambandi/sérnefnd ÍSÍ.

Þjálfararnir eru búsettir mjög víða um land og koma frá fjölmörgum íþróttagreinum s.s. fimleikum, skíðaíþróttum, körfuknattleik, handknattleik, skautaíþróttum, frjálsíþróttum, sundi, karate, blaki, hnefaleikum, bogfimi, júdó, kraftlyftingum, hjólreiðum og taekwondo.

Nám 1. stigs tekur 8 vikur og nám 2. og 3. stigs tekur 5 vikur. Nemendur hafa verið mjög ánægðir með námið í gegnum árin og gefið því góða einkunn. Svör nemenda í vorfjarnámi 1. 2. og 3. stigs vorið 2018 við spurningunni „Hverjir eru styrkleikar námsins?“

„Námið er vel skipulagt og upplýsingaflæði mjög gott“
„Námið víkkar sjóndeildarhringinn“
„Kennarar eru sveigjanlegir með skil á verkefnum“
„Eftir þetta nám erum við betur undirbúin undir áframhaldandi starf með börnum“
„Námið vekur áhuga á að læra meira um það sem viðkemur þjálfun“
„Námið sýnir hlutverk þjálfarans og skilgreinir það vel“

Næsta fjarnám á öllum stigum verður í boði í sumar og hefst seinni part júnímánaðar. Námið verður auglýst á næstu vikum og er skráning rafræn.

Allar upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson á vidar@isi.is og/eða í síma 460-1467 & 863-1399.